Við lifum á tímum þar sem frelsi okkar fer þverrandi, valdboðsstefna og einræðistilburðir fara vaxandi, við verðum vitni að hópmorðinu á Gaza, loftslagsváin vomir yfir okkur og borgaraleg réttindi hafa hnignað. Það er auðvelt að láta hugfallast á þessum erfiðu tímum og finnast sem við fáum litlu um breytt en þó að við getum ekki breytt öllu getum við öll breytt einhverju!
Ljósið í myrkrinu er árleg, alþjóðleg herferð Amnesty International, Þitt nafn bjargar lífi, sem ýtt verður úr vör í dag. Herferðin hefur ítrekað sannað að í krafti samstöðunnar getum við haldið ljósinu og voninni lifandi.
Þitt nafn bjargar lífi
Á þessum örlagaríka tímapunkti í sögunni verðum við að standa með mannréttindum og veita sameiginlega mótspyrnu. Að öðrum kosti er hætta á að valdboðsstjórnir berji enn frekar á frelsi okkar og réttindum.
Þitt nafn bjargar lífi skorar á milljónir einstaklinga að sameinast um að breyta lífi þeirra sem sæta mannréttindabrotum. Herferðin sýnir að jafnvel þegar staða heimsmála virðist yfirþyrmandi þá getur sérhver manneskja haft mikil áhrif með lítilli fyrirhöfn.
Hægt er að skrifa undir bréf til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi, birta færslu á samfélagsmiðlum eða skrifa stuðningskveðju til þolenda mannréttindabrota og aðstandenda þeirra. Með þinni hjálp getum við breytt heiminum og bjargað mannslífi.
Síðan herferðin hófst árið 2001 hafa milljónir einstaklinga breytt lífi annarra einstaklinga sem sætt hafa grófum mannréttindabrotum. Gripið hefur verið til rúmlega 50 milljóna aðgerða frá þeim tíma og jákvæðar breytingar hafa orðið í málum rúmlega 100 einstaklinga.
Á hverju ári fær Amnesty International send þakklætisorð frá þolendum mannréttindabrota úr herferðinni þar sem þeir tjá hversu mikils virði stuðningur frá fólki hvaðanæva að hefur verið þeim og jafnvel leitt til þess að þeir hafi fengið frelsi sitt á ný. Það er afar einfalt að taka þátt og sýna stuðning sinn í verki.
Það eina sem þarf að gera er að kynna sér mál þeirra einstaklinga og hópa sem barist er fyrir í ár og skrifa undir málin hér.
Baráttan fyrir náðun
Eitt af málum Þitt nafn bjargar lífi árið 2023 var Rocky Myers, svartur maður með þroskahömlun. Rocky hafði þá setið á dauðadeild í Alabama í þrjá áratugi. Hann var sakfelldur fyrir morð þrátt fyrir að vitnisburður gegn honum hafi einkennst af ósamræmi. Dómari dæmdi hann til dauða sem var gegn vilja kviðdómsins. Fram til ársins 2017 mátti dómari í Alabama kveða upp dauðadóma gegn vilja kviðdóms þar til lög tóku gildi sem bannaði slíkt. Lögin voru þó ekki afturvirk og náðu því ekki yfir dauðadóm Rocky.
Hundruð þúsundir einstaklinga um heim allan kröfðust þess að ríkisstjóri Alabama náðaði Rocky og í febrúar 2025 varð það loks að veruleika.
Rocky á ekki lengur á hættu á að vera tekinn af lífi en barátta Rockys fyrir réttlæti er þó ekki lokið þar sem hann leitar réttlætis vegna brots á málsmeðferð.
„Herferðin vakti ekki aðeins athygli á máli hans heldur heiðraði einnig Rocky sem manneskju, föður og afa. Ég veit að þessi mikli stuðningur skipti Rocky öllu máli og sú vitneskja að margt fólk taldi sig knúið til aðgerða er sannarlega hvetjandi.“
Miriam Bankston, úr lögfræðiteymi Rocky í Bandaríkjunum.

Endurfundir með fjölskyldu
Samtakamátturinn leiddi sömuleiðis til sigurs í máli Dorgelesse Nguessan frá Kamerún.
Í september 2020 tók hún fyrst þátt í mótmælum í Kamerún vegna áhyggja af ástandi efnahagsmála í heimalandi sínu. Í friðsamlegum mótmælum var Dorgelesse handtekin. Hún var ákærð fyrir „uppreisn, samkomu, fundi og opinber mótmæli“ og dæmd í fimm ára fangelsi.
Mál hennar var hluti af Þitt nafn bjargar lífi árið 2022, þar sem þúsundir kröfðust lausnar hennar. Baráttan hélt áfram þar til Dorgelesse var látin laus og sameinaðist fjölskyldu sinni í byrjun árs 2025.
Dorgelesse þakkaði Amnesty:
„Þið höfðuð samband við okkur á þeim tímapunkti þegar við þurftum mest á því að halda. Sonur minn var veikur, móðir mín var veik. Fangelsisvist mín hafði haft svo mikil áhrif á hana að hún varð enn veikburðari. Þessi herferð gaf henni styrk. Það var okkur öllum hvatning. Ég veit ekki hvernig ég get þakkað Amnesty nóg.“
Dorgelesse Nguessan

Stuðningskveðjur ylja hjartað
Şebnem Korur Fincancı frá Tyrklandi er réttarlæknir, baráttukona fyrir mannréttindum og háskólakennari sem hefur helgað líf sitt stöðvun pyndinga og verndun mannréttinda. Til að þagga niður í henni sætti hún tilhæfulasum glæparannsóknum af hálfu tyrkneskra yfirvalda. Árið 2023 var hún sakfelld fyrir „að búa til áróður fyrir hryðjuverkasamtök“ í kjölfar þess að hún kallaði eftir rannsókn á ásökunum um að tyrkneski herinn notaði efnavopn í Írak. Şebnem á yfir höfði sér tveggja ára fangelsi verði dómnum ekki hnekkt. Mál hennar var tekið upp í Þitt nafn bjargar lífi árið 2024.
Şebnem lét eftirfarandi orð falla:
„Upphaflega voru það hundruð, nú þúsundir, fallegra korta og bréfa, sum handgerð, sem styrkja málstað minn og ylja hjarta mitt.“
Şebnem Korur Fincancı

Nú er tíminn til að hafa áhrif
Nú þurfa fleiri á aðkallandi aðstoð að halda. Í ár beinist herferðin að átta málum einstaklinga og hópa víða um heim.
Í Ekvador berjast ungar baráttustúlkur fyrir verndun Amazon-skógarins, í Noregi berst samísk frumbyggjakona fyrir samfélag sitt til verndar menningu þess og lífsviðurværi sem hreindýrahirðingjar, í Mjanmar hlaut blaðaljósmyndari 20 ára fangelsisdóm fyrir fréttaöflun um eftirköst fellibyls í óþökk stjórnvalda, í Suður-Afríku krefjast foreldrar þriggja ára drengs réttlætis þar sem sonurinn lést eftir að hann féll ofan í kamar á leikskóla sínum og í Túnis situr kona í fangelsi fyrir að tjá sig um málefni á borð við kynþáttafordóma og ómannúðlega meðferð í fangelsum.
Nú hefur þú tækifæri til að breyta lífi þessara einstaklinga og annarra í herferðinni í ár, rétt eins og stuðningsfólk Amnesty International gerði í málum Dorgelesse, Rocky, og fleiri einstaklinga.
Með þinni undirskrift getum við skapað þrýsting á stjórnvöld sem brjóta mannréttindi, snúið ranglæti í réttlæti og haldið voninni á lofti.
Ekki láta þitt eftir liggja.
Hver undirskrift skiptir máli.
