Þitt nafn bjargar lífi: Árangur af starfinu

Nýverið höfum við fengið tvær góðar fréttir sem tengjast okkar árlegu herferð Þitt nafn bjargar lífi. Khaled Drareni, blaðamaður frá Alsír, er nú laus úr haldi með skilyrðum. José Adrián, sem var aðeins 14 ára þegar hann var beittur lögregluofbeldi í Mexíkó, hefur nú fengið skaðabætur frá ríkinu um fimm árum síðar. Mál hans var hluti af herferðinni árið 2019 þar sem krafist var réttlætis fyrir hans hönd.

Khaled Drareni frá Alsír

Blaðamaðurinn Khaled Drareni var handtekinn í mars 2019 fyrir umfjöllun um mótmæli Hirak-hreyfingarinnar í Alsír. Hann var fyrsti óháði blaðamaðurinn til að greina frá mótmælunum og lögregluofbeldi gegn mótmælendum. Hann átti yfir höfði sér tíu ára fangelsi en var að lokum dæmdur í tveggja ára fangelsi í september 2020.

Fjölmiðlafólkið Helgi Seljan og Björk Eiðsdóttir voru meðal þeirra sem kölluðu eftir lausn Khaled ásamt starfsfélögum þeirra víðs vegar um heiminn í myndbandi Amnesty International. Þau mótmæltu því að hann var handtekinn fyrir það eitt að nýta tjáningarfrelsið sitt.

Alsírsk yfirvöld hafa herjað á tugi mótmælenda, fjölmiðlafólks og aðgerðasinna fyrir þátttöku í mótmælum eða fyrir að tjá pólitískar skoðanir sínar á samfélagsmiðlum. Amnesty International hefur rannsakað mál 73 úr þeirra hópi sem hafa verið handtekin, ákærð og jafnvel fengið langa fangelsisdóma út frá óljósum lögum.

Þann 18. febrúar 2021 tilkynnti forseti landsins yfirvofandi kosningar og fyrirskipaði lausn tugi mótmælenda í Hirak-mótmælunum. Næstu tvo daga voru 37 einstaklingar leystir úr haldi en þá var 31 enn í haldi. Khaled Drareni var einn af þeim sem var leystur úr haldi með skilyrðum.

Eftir lausn sína sagði hann eftirfarandi í myndbandi: „Ég vil þakka Amnesty International fyrir þátt sinn í lausn fanganna í Alsír. Til allra deilda Amnesty International um heim allan og þá sérstaklega Alsírdeildarinnar. Ég sendi þakkir frá mínum dýpstu hjartarótum“

Amnesty International kallar enn eftir því að alsírsk yfirvöld felli niður ákærur og leysi úr haldi friðsamlega mótmælendur, aðgerðasinna og fjölmiðlafólk sem er ákært eða enn í haldi fyrir að tjá skoðanir sínar eða mótmæla friðsamlega.

Khaled Drareni – Þitt nafn bjargar lífi 2020

José Adrián frá Mexíkó

José Adrián var aðeins 14 ára gamall á leið heim úr skóla þegar lögregla handtók hann án skýringa og beitti hann ofbeldi. José Adrián var meðal annars látinn hanga í handjárnum á lögreglustöðinni. Hann hafði fyrir tilviljun lent á milli átaka milli hópa ungmenna og var sá eini sem var handtekinn. Algengt er að lögreglan í Mexíkó beini spjótum sínum að fátæku fólki og jaðarhópum og í þessu tilfelli var það frumbyggjastrákur.

Mál hans var hluti af herferðinni Þitt nafn bjargar lífi árið 2019 þar sem krafist var réttlætis í máli hans en þá höfðu litlar framfarir orðið tæpum fjórum árum frá handtöku hans. Í janúar 2021 urðu þau gleðitíðindi að José Adrián og fjölskylda hans skrifuðu undir samning við stjórnvöld um skaðabætur sem meðal annars fela í sér læknisaðstoð, sálrænan stuðning og námsstyrk. Án þrýstings hefði þetta ekki gerst.

Móðir José Adrián þakkaði öllum stuðninginn í myndskilaboðum og sagði frá því að þau væru mjög ánægð og þakklát. Hún sagði að þau hefðu í byrjun verið efins um að þetta væri hægt en þakkaði Amnesty International og öllum þeim sem höfðu stutt þau í gegnum ferlið.

Þrátt fyrir þennan árangur í málinu hefur enginn lögreglumaður verið dreginn til ábyrgðar. Þann 25. febrúar, þegar fimm ár voru liðin frá handtöku José Adrián, afhenti Amnesty International á táknrænan hátt þær 160 þúsund undirskriftir frá rúmlega 40 löndum sem söfnuðust í máli hans til áminningar til yfirvalda í Mexíkó. Amnesty International mun áfram þrýsta á að hinir ábyrgu verði sóttir til saka

José Adrián – Þittnafn bjargar lífi 2019