Á alþjóðlegum mannréttindadegi hinn 10. desember efndi Íslandsdeild Amnesty International til bréfamaraþons. Fjöldi félaga tók þátt í maraþoninu bæði í Reykjavík og á Höfn í Hornafirði.
Á alþjóðlegum mannréttindadegi hinn 10. desember efndi Íslandsdeild Amnesty International til bréfamaraþons. Fjöldi félaga tók þátt í maraþoninu bæði í Reykjavík og á Höfn í Hornafirði. Auk þess sem gestir á aðventutónleikum Amnesty International, sem fóru fram í Neskirkju sama dag, skrifuðu undir áskoranir.
Bréfin voru skrifuð til varnar einstaklingum og samfélagshópum sem eru í hættu. Sum bréfanna lutu að ofbeldi gegn konum, önnur að mannréttindabrotum sem framin eru í nafni ,,stríðsins gegn hryðjuverkum” og enn önnur að málefnum flóttafólks, ritskoðunar á netinu og ofsóknum á hendur mannréttindalögfræðingum og fólki sem vinnur að alnæmisforvörnum.
Um eittþúsund bréf, þar sem farið er fram á úrbætur í mannréttindum, voru send til tuttugu og tveggja landa. Íslandspóstur styrkti samtökin vegna sendingarkostnaðar bréfanna.
Amnesty International hefur allt frá stofnun samtakanna fyrir rúmum fjörutíu árum notað þá aðferð að skrifa bréf til yfirvalda sem ábyrgð bera á mannréttindabrotum og krefja þau um úrbætur. Þessi aðferð hefur reynst mjög áhrifarík og þúsundir karla, kvenna og barna hafa fengið úrbætur sinna mála. Komið hefur verið í veg fyrir pyndingar, dauðadómum breytt og samviskufangar fengið frelsi á ný.
Hjálparsjóður Amnesty International styður við og aðstoðar fórnarlömb mannréttinda-brota og aðstandendur þeirra. Ágóði af aðventutónleikum Íslandsdeildarinnar rennur til þess sjóðs og í ár styrkti deildin sjóðinn með 285.000 krónum.
