Þúsund þakkir fyrir framlag þitt á árinu sem er að líða

Saman höfum við barist fyrir tjáningarfrelsinu og réttlætinu og gegn pyndingum og dauðarefsingum. Bestu þakkir fyrir stuðning þinn á árinu 2014.

 

Saman höfum við barist fyrir tjáningarfrelsinu og réttlætinu víða í heiminum. Einnig höfum við barist gegn pyndingum og dauðarefsingum. Bestu þakkir fyrir stuðning þinn á árinu 2014.

Nú, í lok árs, viljum við þakka þér kærlega fyrir árið sem er að líða. Í ár hefur þú hjálpað til við að bjarga manneskjum, sem dæmdar voru til dauða eða sættu pyndingum. Fyrir þína tilstuðlan hafa samviskufangar verið leystir úr haldi og raddir baráttufólks fengið að heyrast.

Á árinu 2014 hafa á annað hundrað þúsund undirskriftir safnast í aðgerðum til stuðnings mannréttindum í gegnum netákall, SMS-skilaboð, aðgerðakort eða með öðrum hætti. Ungliðahreyfing Amnesty International blómstrar sem fyrr og hefur verið sterkt afl í undirskriftasöfnun okkar og æ fleiri grípa til aðgerða í gegnum netákall okkar.

Við sendum þér okkar bestu óskir um gleðilega hátíð og farsæld á nýju ári. Saman getum við unnið öflugt starf í þágu mannréttinda árið 2015!

Stjórn og skrifstofa Íslandsdeildar Amnesty International

Hér að neðan eru góðar fréttir frá árinu 2014 af málum sem Amnesty International hefur barist fyrir:

Ófrísk kona leyst úr haldi eftir að hafa verið dæmd til dauða fyrir villutrú

Meriam var komin átta mánuði á leið þegar hún var dæmd til dauða fyrir villutrú eftir að hafa verið í fangelsi í nokkra mánuði. Eftir mikinn alþjóðlegan þrýsting var hún leyst úr haldi.

Dauðadómur kínverskrar konu dreginn til baka

Li Yan var dæmd til dauða fyrir morð á ofbeldisfullum eiginmanni sínum. Hún hafði áður reynt að leita sér verndar hjá yfirvöldum og lögreglu án árangurs.

Mannréttindadómstóll Ameríku sendir yfirvöldum í Gvatemala sterk skilaboð vegna skorts á rannsókn á óhugnalegu morði ungrar stúlku

Rosa Elvira Franco Sandoval hefur lengi barist fyrir því að morðmál dóttur sinnar verði rannsakað til hlítar. Mannréttindadómstóll Ameríku úrkskurðaði að staðalmyndir kynjanna í Gvatemala hefði haft neikvæð áhrif á rannsóknina þar sem skuldinni var skellt á fórnarlambið og fjölskyldu hennar.

Langþráður draumur orðinn að veruleika – frumbyggjum í Paragvæ veittur réttur til að fá land sitt til baka

Forseti Paragvæ skrifaði undir lög sem veitti samfélagi Sawhoyamaxa rétt til að snúa aftur til lands síns eftir rúmlega tveggja áratuga baráttu.

Japanskur fangi sem hefur verið lengst allra á dauðadeild í heiminum leystur úr haldi

Hakamada Iwao, 78 ára, var dæmdur til dauða árið 1968 eftir ósanngjörn réttarhöld. Hann var leystur úr haldi þegar héraðsdómstóll ákvað að mál hans yrði tekið upp að nýju en þessi úrskurður er þó í áfrýjun.

Samviskufangi í Mexíkó leystur úr haldi

Ángel Amílcar Colón Quevedo, frá Hondúras, var pyndaður og í fangelsi í 5 ár í Mexíkó vegna kynþáttafordóma og stöðu hans sem óskráðs farandverkamanns. 

Myndband af Ángel þegar þegar hann var enn í haldi og sendi fjölskyldu sinni skilaboð

 

Samfélög í Síerra Leone snúa baki við limlestingum kynfæra kvenna í kjölfar mannréttindafræðslu

Umræður og samningaviðræður allra hópa um mannréttindi í samfélögum í Síerra Leone ber árangur.

Myndband sem sýnir hvernig hugarfarið hefur breyst í kjölfar umræða um mannréttindi í afskekktum samfélögum í Síerra Leone

 

Samviskufangi í Hvíta-Rússlandi laus úr haldi

Mannréttindafrömuðurinn Ales Bialiatski var leystur úr haldi fyrr en áætlað var sem kom honum í opna skjöldu.

Spænsk stjórnvöld felldu frumvarp um fóstureyðingabann

Spænsk stjórnvöld felldu grimmilegt frumvarp til laga sem setja átti fóstureyðingum í landinu mjög þröngar skorður, er ógnað hefði heilsu, lífi og reisn kvenna og stúlkna. Frumvarpið mætti gríðarlegri andstöðu meðal alþjóðasamfélagsins, óháðra félagasamtaka, kvenréttindasamtaka, heilbrigðisstarfsfólks um víða veröld og kvenna og stúlkna á Spáni.

Mexíkóskir hermenn sóttir til saka fyrir pyndingar og kynferðislegt ofbeldi

Eftir margra ára baráttu fyrir réttlæti verða fjórir hermenn dregnir fyrir dómstól fyrir pyndingar og kynferðislegt ofbeldi á hendur Inés Fernández Ortega og Valentina Rosendo Cantú.