Laugardaginn 10. október stendur Íslandsdeild Amnesty International fyrir táknrænni aðgerð Í Smáralind til stuðnings fólki sem sætir þvinguðum brottflutningi víða í Afríku.
Laugardaginn 10. október stendur Íslandsdeild Amnesty International fyrir táknrænni aðgerð Í Smáralind til stuðnings fólki sem sætir þvinguðum brottflutningi víða í Afríku. Ljósmyndir verða til sýnis, aðgerðakortum dreift, boðið upp á heimsókn í hreysi og heitt afrískt te, og undirskriftum safnað á „hús undirskriftanna“.
Viðburðurinn stendur frá kl. 13 til 16. Allir velkomnir.
Þvingaður brottflutningur
Hundruð þúsunda Afríkubúa um alla álfuna missa húsnæði sitt á hverju ári þegar þeir eru þvingaðir úr húsum sínum af yfirvöldum. Oftast fer útburðurinn fram án þess að farið sé að lögum og reglum, án viðvarana, viðræðna og skaðabóta. Í stað þess að bæta húsnæðiskost fólks og lífsskilyrði, sérstaklega þeirra sem búa við sárustu fátæktina, hrekja margar ríkisstjórnir fólk út í enn sárari fátækt. Fólk er þvingað af heimilum sínum án þess að annað húsnæði sé í boði og samfélög leysast upp. Fólkið missir ekki einungis heimili sín og þær fáu veraldlegu eigur sem því hefur hlotnast, heldur glatar það ennfremur samfélagslegum stuðningi. Þvinguðum brottflutningum fylgja oft skortur á aðgangi að hreinu vatni, fæði, skolpræsum, atvinnu, heilbrigðisþjónustu og menntun.
Á undanförnum árum hefur Amnesty International skráð tilvik um fjöldaútburði í Angóla, Tsjad, Miðbaugs-Gíneu, Gana, Kenía, Nígeríu, Súdan, Svasílandi og Simbabve. Fulltrúar yfirvalda sem bera fólk út í Afríku beita oft óhóflegu ofbeldi og jafnvel skotvopnum. Amnesty International hefur skráð tilfelli þar sem fólk hefur látið lífið í aðgerðunum eða í kjölfar þeirra, þeirra á meðal eru börn.
Þvingaður brottflutningur fólks af heimilum sínum er gróft brot á mannréttindum sem samstundis ber að stöðva. Verði ríkisstjórnir ekki látnar bera ábyrgð á þvinguðum brottflutningi verður fólk áfram fyrir grófum mannréttindabrotum .
Amnesty International skorar á leiðtoga Afríku að stöðva þessi mannréttindabrot.
Húsaskjól er mannréttindi
Frá 5. október 2009 á alþjóðlegum réttindadegi til búsetu (World Habitat Day) mun fólk alls staðar að úr Afríku bæta nafni sínu á „hús undirskriftanna“ (hús prentað á stóran dúk) en húsið er hugsað sem táknræn krafa um réttinn til húsaskjóls. Nokkur „húsanna” verða sýnd afrískum leiðtogum sem eru í aðstöðu til að binda endi á þvingaðan brottflutning í álfunni. Önnur verða færð baráttufólki fyrir mannréttindum til að sýna því stuðning við að stöðva þvingaða brottflutninga, en baráttu þeirra er gjarnan mætt með kúgun.
Íslandsdeild Amnesty International hvetur fólk til að koma í Smáralind laugardaginn 10. október milli kl. 13.00 og 16.00
BÆTTU ÞÍNU NAFNI VIÐ Á „HÚS UNDIRSKRIFTANNA“
