Amnesty International fagnaði tímamótadómi þegar Pólland, fyrst allra aðildarríkja Evrópusambandsins, var dæmt samsekt Bandaríkjunum í tengslum við framsal, leynilegt varðhald og pyndingar gegn meintum hryðjuverkamönnum.
Amnesty International fagnaði tímamótadómi þegar Pólland, fyrst allra aðildarríkja Evrópusambandsins, var dæmt samsekt Bandaríkjunum í tengslum við framsal, leynilegt varðhald og pyndingar gegn meintum hryðjuverkamönnum.
Tveir menn, Abd al-Rahim al-Nashiri og Zayn al-Abidin Muhammad Husayn lögðu, hvor fyrir sig, mál sín fram fyrir Evrópudómstólinn árin 2011 og 2013. Báðir mennirnir eru í haldi í fangabúðunum við Gvantanamó-flóa á Kúbu.
Abd al-Rahim al-Nashiri, frá Sádí-Arabíu, er sakaður um að hafa verið heilinn á bak við sprengingu á bandarískt herskip undan ströndum Jemen árið 2000. Hann segist hafa verið yfirheyrður í leynilegu mannvirki í Póllandi og þurft að þola „hertar yfirheyrsluaðferðir“ og önnur mannréttindabrot eins og sviðsettar aftökur með byssum og hótanir um kynferðislegar árásir á fjölskyldumeðlimi.
Zayn al-Abidin Muhammad Husayn, einnig þekktur sem Abu Zubaydah, er ríkisfangslaus Palestínumaður, fæddur í Sádí-Arabíu, er einnig talinn hafa verið í haldi í Póllandi. Hann segir að þar hafi hann verið látinn þola óbærilegan líkamlegan sársauka og sálfræðilegar þjáningar. Fyrrum forseti Bandaríkjanna, George W. Bush, hefur greint frá því í ævisögu sinni frá árinu 2010 að hann hafi gefið leyfi fyrir notkun „hertra yfirheyrsluaðferða“ á Abu Zubaydah, þar á meðal vatnspyndinga, þegar hann var í leynilegu varðhaldi hjá bandarísku leyniþjónustunni, CIA.
Al-Nashiri stendur frammi fyrir dauðadómi í réttarhöldum fyrir herdómstól í Gvantanamó. Bandarísk yfirvöld hafa ekki enn ákært Abu Zubaydah fyrir neinn glæp, rúmlega 12 árum eftir handtöku hans.
Niðurstöður dómstólsins
Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að pólsk stjórnvöld hefðu lagt á ráðin með bandarísku leyniþjónustunni CIA að setja á laggirnar leynilegt fangelsi í Stare Kiejkuty sem var starfrækt á árunum 2002-2005. Á þessum stað, 180 km norður af Varsjá, voru fangar í leynilegu varðhaldi og pyndaðir.
Þessi tímamótaúrskurður í júlí er stór áfangi gegn refsileysi þar sem hann afhjúpar sannleikann um myrkt tímabil í sögu Póllands. Vísvitandi var Pólland hluti af ólöglegu neti Bandaríkjanna af stöðum sem notaðir voru til leynilegra varðhalda og pyndinga á einstaklingum grunuðum um hryðjuverk.
Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að Pólland hefði brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu, meðal annars með að láta hjá líða að rannsaka ásakanir mannanna; um pyndingar og aðra illa meðferð, leynilegt varðhald og flutninga á milli staða þar sem þeir áttu á hættu að verða fyrir enn frekari mannréttindabrotum, þar á meðal pyndingum og annarri illri meðferð. Rétturinn staðfesti einnig rétt þolenda og almennings til að vita sannleikann.
Hvað þarf að gerast í kjölfarið?
Í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu kallar Amnesty International eftir því að pólsk yfirvöld komi á fót skilvirkri rannsókn og tryggi að þeir sem brutu gegn alþjóðalögum um pyndingar og þvinguð mannshvörf verði dregnir til ábyrgðar. Önnur Evrópusambandsríki sem eru sökuð um að hafa átt þátt í aðgerðum CIA er tengjast framsali og leynilegum handtökum verða einnig stíga fram og afhjúpa sannleikann.
Pólland er ekki einsdæmi. Mörg önnur ríki innan Evrópusambandsins lögðu á ráðin með Bandaríkjunum um mannrán, ólöglega flutninga, mannshvörf og pyndingar í framsalsaðgerðum þeirra. Enda þótt niðurstaðan sé þýðingarmikið framfaraskref þá er enn margt ógert í að tryggja ábyrgðarskyldu í Evrópu.
Amnesty International hefur kallað eftir rannsóknum og að tryggt verði að hinir seku verði dregnir til ábyrgðar í áþekkum ásökunum í öðrum Evrópulöndum, þar á meðal Ítalíu, Litháen, Rúmeníu, Svíþjóð og Bretlandi.
Bakgrunnur
Pólland hefur verið í sviðsljósinu síðan árið 2005 eftir að staðfest var að það hýsti leynilegt fangelsi fyrir CIA.
Í mars 2008, hófu pólsk yfirvöld glæparannsókn sem seinkaði ítrekað vegna breytinga á starfsmannahaldi, tilfærslu frá Varsjá til Kraká og staðhæfinga um skort á samstarfsvilja bandarísku ríkisstjórnarinnar. „Þjóðaröryggi“ var ítrekað notað sem réttlæting fyrir leyndinni á rannsókninni.
Amnesty International lagði fram eftirfarandi eftirfarandi gögn vegna máls þeirra fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu:
· Abu Zubaydah v Poland:http://www.amnesty.org/en/library/info/EUR37/007/2013/en
· Al-Nashiri v Poland: http://www.amnesty.org/en/library/info/EUR37/002/2012/en
· Al-Nashiri supplementary submission: http://www.amnesty.org/en/library/info/EUR37/003/2013/en
Í öðru aðskildu máli komst Mannréttindadómstóll Evrópu samhljóða að þeirri niðurstöðu, þann 13. desember 2012, að Makedónía væri ábyrg fyrir ólögmætri handtöku, þvinguðu mannshvarfi, pyndingum og annarri illri meðferð á þýska ríkisborgaranum Khaled El-Mashri.
Íslandsdeild Amnesty International hefur meðal annars fjallað um þessar aðgerðir bandarísku leyniþjónustana CIA hér:
http://www.amnesty.is/starfid-okkar/herferdir/oryggi-og-mannrettindi/abyrgdarskylda/
http://www.amnesty.is/starfid-okkar/frettir/nr/1646
http://www.amnesty.is/media-old/frettabrefid/2006/1tbl-jul-2006.pdf
