Gera verður óháða rannsókn á fregnum þess efnis að lögregla í Aserbaídsjan hafi lamið tónlistarmenn „hrottalega“, sem komu fram á mótmælafundi. Tveir hljómsveitarmeðlimir, þeir Jamal Ali, 24 ára, og bassaleikari hans, Natig Kamilov, 24 ára, eru enn í haldi lögreglu.
Gera verður óháða rannsókn á fregnum þess efnis að lögregla í Aserbaídsjan hafi lamið tónlistarmenn „hrottalega“, sem komu fram á mótmælafundi. Tveir hljómsveitarmeðlimir, þeir Jamal Ali, 24 ára, og bassaleikari hans, Natig Kamilov, 24 ára, eru enn í haldi lögreglu.
Mennirnir tveir voru handteknir eftir að Ali móðgaði látna móður forsetans, Ilham Aliyev, á hljómleikum í höfuðborginni, Bakú, laugardaginn 17. mars, ásamt skipuleggjanda mótmælanna, Etibar Salmanli, sem er 25 ára.
Mennirnir voru síðan allir ákærðir fyrir óspektir og þeir færðir í 10 daga varðhaldsvist.
Gera verður tafarlausa, ítarlega og óháða rannsókn á ofbeldi lögreglunnar og draga hina seku til ábyrgðar.
Jamal Ali og Natig Kamilov hafa ekki fengið að hitta fjölskyldu sína og lögfræðinga. Þeir greindu frá því fyrir rétti að þeir hefðu sætt ofbeldi af hálfu lögreglu í varðhaldinu.
Mennirnir þrír eru enn í einangrun og óttast er að þeir geti sætt pyndingum.
Fyrr í þessum mánuði voru fjögur önnur ungmenni lamin og 17 handteknir fyrir að taka þátt í friðsamlegum mótmælum.
Yfirvöld í Aserbaídsjan hafa í raun gert það ólöglegt að taka þátt í friðsamlegum mótmælum gegn stjórnvöldum í miðbæjum borga, með því að banna mótmæli og fangelsa þá sem taka þátt í þeim.
Lögregla beitir oft miklu ofbeldi við að brjóta á bak aftur friðsamleg mótmæli.
Blaðamönnum hefur verið meinað að greina frá mótmælunum og þeim hótað, og baráttufólk fyrir mannréttindum hefur sætt hótunum og ýmsum hindrunum er það hefur reynt að sinna starfi sínu.
Alda friðsamlegra mótmæla reið yfir landið í mars og apríl 2011, þar sem krafist var að látið yrði af kúgun í landinu. Margir mótmælendur og fylgismenn stjórnarandstöðunnar voru dæmdir í fangelsi á grundvelli upploginna ákæra.
Amnesty International berst fyrir því að 14 samviskufangar, sem fangelsaðir voru í kjölfar mótmælanna í fyrra, verði þegar í stað og skilyrðislaust leystir úr haldi og hvetur stjórnvöld í landinu að leyfa röddum borgaranna að heyrast í aðdraganda Eurovision-söngvakeppninnar í Bakú í maí.
Það er mjög kaldhæðnislegt að einungis tveimur mánuðum áður en sviðsljós Evrópu beinist að Bakú vegna Eurovision skuli yfirvöld í landinu beita ofbeldi gegn tónlistarmönnum sem koma fram á friðsamlegum mótmælum á götum borgarinnar.
