Í ljósi yfirstandandi námskrárvinnu hvetur Íslandsdeild Amnesty International stjórnvöld til að tryggja kennslu í mannréttindum á öllum skólastigum.
Íslandsdeild Amnesty International sendi mennta- og menningarmálaráðherra bréf þar sem hvatt er til þess að íslensk stjórnvöld horfi til þess í ljósi yfirstandandi námsskrárvinnu að tryggð verði kennsla í mannréttindum á öllum skólastigum.
Katrín Jakobsdóttir mennta-og menningamálaráðherra
Mennta-og menningamálaráðuneytið
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík
Reykjavík 07.12.2009
Háttvirti ráðherra
Í ljósi yfirstandandi námskrárvinnu vill Íslandsdeild Amnesty International hvetja yður til að tryggja kennslu í mannréttindum á öllum skólastigum.
Samkvæmt núgildandi lögum er ekki skýrt kveðið á um að kennsla í mannréttindum sé hluti af lögbundnu námi barna og unglinga. Íslandsdeild Amnesty International telur það samræmast illa alþjóðlegum skuldbindingum Íslands að mannréttindafræðsla sé ekki lögbundin.
Rétturinn til mannréttindafræðslu er settur fram í fjölmörgum alþjóðlegum mannréttindasamningum og yfirlýsingum[1] þar sem kveðið er á um að ríkisstjórnir skuli tryggja menntun í víðasta skilningi til handa öllum borgurum, þar á meðal börnum og ungu fólki. Þá segir í 26. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna: „Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og innræta þeim virðingu fyrir mannréttindum og mannhelgi. Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal þjóða, kynþátta og trúarflokka og að efla starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðarins.“
Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt sérstaka áherslu á mannréttindafræðslu og var áratugurinn milli 1994-2004 tileinkaður mannréttindafræðslu og lagt að ríkisstjórnum að lögbinda slíka fræðslu og kennslu. Kennsla í mannréttindum hefur það að markmiði að auka skilning á réttindum og skyldum sem hver og einn hefur og þarf að njóta og uppfylla. Þeir alþjóðasamningar sem vísað er til hér að ofan eru lagalega bindandi fyrir íslenska ríkið sem hefur fullgilt þá og leggja þeir áherslu á skyldur ríkisstjórna til að veita mannréttindafræðslu á öllum skólastigum, og tryggja að öll menntun stuðli að virðingu og viðgangi mannréttinda. Mannréttindakennsla í skólum verður æ mikilvægari, ekki síst í ljósi þess að víða í heiminum er nú vegið að grundvallarmannréttindum. Þá er hafið yfir vafa að aukin samskipti milli ólíkra þjóðernishópa, fjölgun innflytjenda og þar með aukin hætta á mismunun gerir mannréttindafræðslu afar brýna á öllum skólastigum. Slík fræðsla mun stuðla mjög að þekkingu og skilningi á réttindum og skyldum, bæði eigin og annarra og þar með auka líkur á því að allir fái notið slíkra réttinda og virði rétt annarra til að njóta þeirra.
Með vísan til þess sem rakið er hér að ofan hvetur Íslandsdeild Amnesty International yður til að tryggja að í allri námsskrárgerð sé virðing fyrir mannréttindum hluti af markmiði og hlutverki skólanna.
Virðingarfyllst
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir
Framkvæmdastjóri
Íslandsdeildar Amnesty International
[1] Samningur um réttindi barnsins (1990) gr. 28 og 29
Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (1966) gr. 13
Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum (1979) gr. 10
Samningur um afnám alls kynþáttamisréttis (1969) gr. 7
Evrópuráðið: Samningsviðauki nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis (1954) gr. 2
