Túnis: Hinsegin aðgerðasinni sætti hrottalegri árás

Lögreglumenn réðust á Badr Baabou, baráttumann fyrir mannréttindum og hinsegin aðgerðasinna, í Túnis í október 2021. Hann var skotmark öryggissveita vegna vinnu sinnar og baráttu fyrir réttindum hinsegin einstaklinga í Túnis. Þetta er nýlegasta árásin af mörgum sem Badr hefur orðið fyrir undanfarin ár.

Taktu þátt í starfi Amnesty og skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!

Badr Baabou er einn stofnandi DAMJ samtakanna sem hafa verið hvað mest áberandi í baráttu fyrir réttindum hinsegin einstaklinga þar í landi. Síðla kvölds 21. október var ráðist á Badr úti á götu í miðbæ Túnisborgar og hann barinn þar til hann missti næstum meðvitund. Badr komst heim og hafði samband við lögfræðing samtakanna sem kom honum á spítala. Mennirnir sem réðust á hann sögðu ástæðuna vera kvartanir á hendur lögreglu sem Badr hafði lagt fram. 

Samkvæmt upplýsingum frá DAMJ og Mannréttindavaktinni (HRW) hefur Badr verið áreittur, honum hótað og ráðist hefur verið á hann nokkrum sinnum. Vegna þessa hefur hann þurft að flytja nokkrum sinnum.  

Badr hefur lagt fram kæru vegna árásanna en ekkert hefur verið aðhafst í málinu. 

Sms-félagar krefjast þess að opnuð verði rannsókn á máli Badr Baabou og gerendur dregnir til ábyrgðar.