Tveimur palestínskum stúlkum sleppt úr ísraelsku fangelsi

Salwa Salah og Sara Siureh frænka hennar, báðar 17 ára, sættu varðhaldsvist í Ísrael frá því í júní 2008, án ákæru eða réttarhalda. Þær voru báðar leystar úr haldi þann 1. janúar 2009.

Salwa Salah

Salwa Salah og Sara Siureh frænka hennar, báðar 17 ára, sættu varðhaldsvist í Ísrael frá því í júní 2008, án ákæru eða réttarhalda. Þær voru báðar leystar úr haldi þann 1.janúar 2009.

Stúlkurnar tvær, sem verða 17 ára í þessum mánuði, voru handteknar aðfaranótt 5. júní 2008 á heimilum sínum í Betlehem á herteknu svæðunum. Ísraelskur herforingi skipaði svo fyrir að þær skyldu sæta varðhaldsvist í fjóra mánuði án ákæru eða réttarhalda.

Þann 5. október átti úrskurðurinn um varðhaldsvist að falla úr gildi en hann var framlengdur í þrjá mánuði, til 3. janúar 2009. Ísraelsher fullyrti að Salwa og Sara hafi tekið þátt í aðgerðum sem séu „öryggisógn“, en hefur ekki gert opinber nein gögn til að staðfesta þær ásakanir. Því var ekki hægt að véfengja fullyrðingar Ísraelshers fyrir dómi. Báðar stúlkurnar neituðu öllum sakargiftum en þær hafa aldrei sætt handtöku fyrr.

Stúlkurnar sættu varðhaldsvist í nokkrum fangelsum í Ísrael en þær kvörtuðu báðar yfir illri meðferð þegar þær voru fluttar á milli staða. Báðum var gert að sæta niðurlægjandi líkamsleit af hendi öryggisgæslunnar í hverju fangelsi. Síðustu mánuðina var þeim haldið í Damoun fangelsi í norðanverðu Ísrael, í trássi við Genfarsamninga, en í samræmi við ákvæði þeirra eiga Palestínumenn að sæta fangelsi og varðhaldsvist á herteknu svæðunum, en ekki í Ísrael. Þær eru meðal 275 palestínskra barna, sem haldið er í ísraelskum fangelsum. Þar af er 13 haldið í sambærilegri varðhaldsvist, án ákæru eða réttarhalda. Ísraelskir herforingjar geta dæmt fólk í slíka varðhaldsvist í allt að sex mánuði í senn, og endurnýjað þann úrskurð endalaust.

Palestínsk börn njóta ekki sömu réttinda og ísraelsk börn fyrir lögum, en mega sæta reglum og úrskurðum Ísraelshers sem samræmast ekki barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Ísrael er aðili að. Nefnd SÞ um réttindi barnsins hefur lýst yfir áhyggjum af því að löggjöf í Ísrael mismuni ísraelskum og palestínskum börnum.