Alþjóðasamfélagið hefur brugðist því að takast á við vaxandi fjölda
sýrlenskra flóttamanna sem flýja til Tyrklands. Það hefur leitt til
neyðarástands af stærðargráðu sem á sér engin fordæmi.
Alþjóðasamfélagið hefur brugðist því að takast á við vaxandi fjölda sýrlenskra flóttamanna sem flýja til Tyrklands. Það hefur leitt til neyðarástands af stærðargráðu sem á sér engin fordæmi. Flóttafólkið stendur frammi fyrir því að vera þvingað til snúa að til baka, skotið er á það og hundruð þúsunda búa við örbirgð, samkvæmt Amnesty International.
Í skýrslu Amnesty, Struggling to Survive: Refugees from Syria in Turkey, kemur fram að mannréttindum 1,6 milljóna sýrlenskra flóttamanna, sem hafa sótt hæli í landinu á síðustu þremur og hálfu ári, er stefnt í hættu. Þar er einnig athyglinni beint að tregðu alþjóðasamfélagsins til að taka fjárhagslega ábyrgð á flóttamannaástandinu.
„Tyrkland á bersýnilega í basli við að koma til móts við grunnþarfir hundruð þúsunda sýrlenskra flóttamanna. Það hefur þær afleiðingarnar að margir sem komast yfir landamærin standa einir á báti og búa við örbirgð. Mannúðaraðstoð sem alþjóðasamfélagið hefur boðið fram er sorglega lítil, en Tyrkland verður að gera meira til að óska eftir og greiða leið fyrir aðstoð, sagði Andrew Gardner, rannsakandi Amnesty International í Tyrklandi.
„Þó að Tyrkland hafi opinberlega opnað landamæri sín fyrir sýrlenskum flóttamönnum þá endurspeglar það ekki raunveruleika allra sem hafa flúið hörmungar stríðsins. Ófáir hafa verið þvingaðir til baka á átakasvæði og jafnvel skotið er á þá.
Tyrkland hefur tekið á móti helming af þeim 3,2 milljónum kvenna, manna og barna sem hafa flúið ofbeldi, ofsóknir og önnur mannréttindabrot í Sýrlandi. Samkvæmt Tyrklandi hefur landið fram að þessu varið um 4 milljörðum dollurum vegna flóttamannaástandsins. Á sama tíma hafa aðeins 28% af 497 milljónum dollara, sem lofað hafði verið til Tyrklands vegna ástandsins, skilað sér.
Tyrkland, ásamt hinum nágrannalöndunum, Líbanon, Jórdanía, Írak og Egyptaland, hafa tekið við 97% allra sýrlenskra flóttamanna. „Tyrkland hefur tekið á sínar herðar mesta þungann af fjárhagslegu ábyrgðinni. Tregða auðugra ríkja til að taka aukna fjárhagslega ábyrgð á flóttamannaástandinu í heild og lítilfjörleg boð um móttöku flóttamanna eru sorgleg, sagði Andrew Garnder.
Skothríð við landamærin
Þrátt fyrir að Tyrkland haldi á lofti stefnu um opin landamæri fyrir sýrlenska flóttamenn, þá eru aðeins tveir staðir við 900 km löng landamærin sem eru opin að fullu. Jafnvel á þessum stöðum þá er þeim sem eru án vegabréfs iðulega vísað frá, nema um sé að ræða neyðartilfelli af læknisfræðilegum- eða mannúðarástæðum.
Ofan á bætist að landamærin eru hættulega langt í burtu fyrir flesta flóttamenn að fara. Margir hafa þó ekki annað val en að fara þessa erfiðu leið og oft yfir hættuleg átakasvæði þar sem þeir þurfa gjarnan að reiða sig á smyglara og mæta oft harðræði.
Amnesty International hefur skráð 17 manns í hið minnsta sem fallið hafa vegna skotárása af hendi landamæravarða við óformlegu landamærin frá desember 2013 til ágúst 2014. Margir hafa orðið fyrir barsmíðum eða annarri illri meðferð og eru þvingaðir til að snúa aftur til hins stríðshrjáða Sýrlands.
Ali Özdemir, 14 ára, var skotinn í höfuðið aðfaranótt 19. maí 2014 þegar hann nálgaðist tyrknesku landamærin. Faðir hans sagði Amnesty International að Ali hafi verið í för með níu öðrum flóttamönnum. Um tíu metrum frá tyrkneskum landamærunum heyrðu þeir fólk tala tyrknesku. Ali varð þá hræddur. Á sama tíma og hann ákvað að snúa við var hann skotinn í höfuðið án þess að gefin væri munnleg viðvörun eða viðvörunarskotum skotið upp í loftið. Ali varð blindur á báðum augum.
Það er auvirðilegt að skotið er að fólki sem flýr átök og leita í örvæntingu að öruggu skjóli. Þetta eru skýr brot á alþjóðalögum og má ekki viðgangast refsilaust, sagði Andrew Gardner. „Það er grundvallarskylda ríkja að opna dyr sínar fyrir flóttamönnum sem eru að flýja ofsóknir eða stríðsátök. Tyrknesk yfirvöld verða að grípa til alhliða ráðstafana til að tryggja hámarksöryggi og aðgang fyrir flóttamenn sem flýja átökin í Sýrlandi.“
Innan landamæranna
Af 1,6 milljónum sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi eru aðeins 220.000 sem búa í 22 vel útbúnum búðum sem í dag rúma ekki fleiri. Ríflega 1,3 milljónir flóttamanna þurfa að sjá sér farborða. Samkvæmt heimildum frá tyrkneskum stjórnvöldum, fá aðeins 15% sýrlenskra flóttamanna sem ekki eru í opinberum búðum aðstoð frá mannúðarsamtökum.
Fjölskyldur þurfa að grípa til örþrifaráða til að reyna að ná endum saman til að sinna grunnþörfum fyrir mat og skjóli, jafnvel að láta börn sín vinna.
„Ibrahim“ er tíu ára strákur sem flúði með fjölskyldu sinni frá Aleppo fyrir tveimur árum og flutti til landamærabæjarins Kilis, þar sem fjölskyldan býr í steyptu skotbyrgi. Til að draga fram lífið, safna faðirinn og sonurinn plasti úr ruslatunnum, og fá eina tyrkneska líru (um 60 kr.) fyrir hálft kíló af plasti. Ibrahim tjáði Amnesty International að hann vaknaði hvern dag kl. 6 um morguninn og lyki vinnu sinni um klukkan fjögur síðla dags. Suma daga hefur hann tíma til að læra að lesa og skrifa hjá trúarleiðtoga á svæðinu. Engin af níu börnunum í fjölskyldunni ganga í skóla.
„Það er harður og vonlaus veruleiki sem blasir við flestum sýrlenskum flóttamönnum sem hafa flúið hörmungar stríðsins. Auðugustu ríki heims draga lappirnar þegar kemur að því að bjóða fjárhagslegan stuðning og móttöku flóttamanna, sagði Andrew Gardner.
Tyrkland gerði nánari grein fyrir lagalegri stöðu og réttindum sýrlenskra flóttamanna í október þegar þingið samþykkti verndartilskipun til bráðabirgða. Nauðsynlegt er að þessari tilskipun sé fylgt eftir að fullu og henni miðlað bæði til sýrlenskra flóttamanna og opinberra starfsmanna.
