Tyrkland: Tveir menn horfnir sporlaust

Tveir menn, Gökhan Türkmen og Mustafa Yılmaz, hurfu sporlaust í febrúar á þessu ári. Grunur leikur á að um þvingað mannhvarf sé að ræða en yfirvöld hafa til þessa neitað að þeir séu í haldi þeirra. Þann 29. júlí birtust á ný fjórir menn, sem einnig hafði verið saknað síðan í febrúar, en þeir höfðu verið í haldi hryðjuverkadeildar lögreglunnar í höfuðstöðvum hennar í Ankara. Báðir mennirnir sem enn er saknað eru opinberir starfsmenn sem reknir voru samkvæmt tilskipun ríkisstjórnarinnar í kjölfar valdaránstilraunarinnar í Tyrklandi árið 2016.

Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér! Sendu svo AKALL í númerið 1900 til að skrifa undir málið.

Mustafa Yılmaz var dæmdur fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum í janúar 2019. Hann var leystur úr haldi á meðan beðið var áfrýjunar en á leið sinni til vinnu þann 19. febrúar 2019 hvarf hann sporlaust. Myndbandsupptökur sýna óþekkta einstaklinga berja Mustafa, setja hvítan poka yfir höfuð hans og draga hann inn í svartan sendiferðabíl.

Í ágúst 2016 var gerð leit á heimili Gökhan Türkmen vegna rannsóknar á meintu broti hans, að hafa „stofnað og leitt hryðjuverkasamtök”. Hann var ekki heima þegar leitin fór fram og hafði verið á flótta í þrjú ár þar á eftir. Gökhan var í takmörkuðu sambandi við foreldra sína á meðan flóttanum stóð. Móðir hans sá hann síðast í Antalya- héraði í Tyrklandi þann 7. febrúar 2019 þegar hann fékk lánaða vespu sem hann ætlaði að skila næsta dag. Vespan fannst daginn eftir í næstu götu og foreldrar hans tilkynntu hvarf hans þann 12. Febrúar síðastliðinn.

Yfirvöld tilkynntu þann 29. júlí að fjórir men, Salim Zeybek, Yasin Ugan, Özgür Kaya og Erkan Irmak, sem einnig hurfu í febrúar, væru í haldi hryðjuverkadeildar lögreglunnar í Ankara. Þeir hafa ekki aðgang að lögfræðingi og hafa aðeins hitt eiginkonur sínar stuttlega. Þeir virðast ekkert hafa gefið upp um hvað hafi gerst þann tíma sem þeir voru í haldi. Þann 10. ágúst, eftir 12 daga í lögregluvarðhaldi, var gæsluvarðhald yfir mönnunum framlengt án nokkurrar ástæðu.

SMS félagar krefjast þess að yfirvöld rannsaki hvar mönnunum er haldið og upplýsi fjölskyldur þeirra tafarlaust.