Að sögn Amnesty International er ógilding laganna gegn samkynhneigð skref í átt að því að stöðva mismunun gegn hinsegin fólki, sem studd er af ríkinu. „Þó að hin andstyggilegu lög hafi verið felld á grundvelli formreglu er þetta mikilvægur sigur fyrir úgandska aðgerðasinna sem hafa barist gegn þessum lögum.
Að sögn Amnesty International er ógilding laganna gegn samkynhneigð skref í átt að því að stöðva mismunun gegn hinsegin fólki, sem studd er af ríkinu.
„Þó að hin andstyggilegu lög hafi verið felld á grundvelli formreglu er þetta mikilvægur sigur fyrir úgandska aðgerðasinna sem hafa barist gegn þessum lögum. Frá því að lögin voru fyrst viðruð árið 2009 hafa þessir aðgerðasinnar ítrekað stefnt öryggi sínu í hættu til að tryggja að úgöndsk lög virði meginreglur er snúa að mannréttindum,“ segir Sarah Jackson, aðstoðarframkvæmdastjóri Afríkudeildar Amnesty International.
„Við vonum að þetta skref hafi raunverulega jákvæð áhrif á líf hinsegin fólks í Úganda, sem hefur verið fast í vítahring mismununar, hótana, misþyrminga og óréttlætis alltof lengi“.
Síðan lögin tóku gildi í mars 2014 hefur Amnesty International skráð snarpa aukningu í geðþóttahandtökum, lögregluofbeldi og þvingunum í garð hinsegin fólks. Margir hafa misst vinnuna, heimili sín eða verið þvingaðir til að flýja land.
Stjórnskipunardómstóll Úganda dæmdi lögin ógild í dag, þar sem of fáir fulltrúar voru í herberginu þegar lögin voru samþykkt af þinginu í desember 2013. Enn er þó í gildi lagagrein,145. gr. úgandskra hegningarlaga, sem gerir „holdlegt samræði gegn lögmálum náttúrunnar“ enn saknæmt.
