Íbúar í bænum Debaltseve í Úkraínu eru á barmi örvæntingar, þúsundir leita í örvinglun að skjóli frá sprengjuárásum og skortur er á rennandi vatni, rafmagni og nauðsynlegum sjúkravörum, að sögn Amnesty International.
Íbúar í bænum Debaltseve í Úkraínu eru á barmi örvæntingar, þúsundir leita í örvinglun að skjóli frá sprengjuárásum og skortur er á rennandi vatni, rafmagni og nauðsynlegum sjúkravörum, að sögn Amnesty International.
Ástandið í Debaltseve er hörmulegt, sagði Joanne Mariner, ráðgjafi um neyðarviðbrögð hjá Amnesty International, sem er nýkomin þaðan.
„Ég ræddi við marga eldri borgara sem eru skeflingu lostnir og lokaðir inni í kjöllurum sínum, við skelfilegar og þröngar aðstæður. Margir sögðu mér að þeir væru algjörlega ráðalausir, vissu ekkert hvað þeir ættu að gera. Sprengikúluhríðin er stöðug. Fólkið er algjörlega upp á náð og miskunn aðstæðna sem það hefur enga stjórn á.“
„Báðum aðilum í átökunum ber skylda til að forðast borgaraleg svæði og tryggja að fólk geti flutt sig á brott úr bænum á öruggan hátt. Alþjóðasamfélagið, þar með talið Rússland, verða að fordæma á afgerandi hátt brot á stríðslögum hjá báðum aðilum.“
Debaltseve er staðsett á mikilvægum tengisporum fyrir lestasamgöngur og er höfuðvígi úkraínska hersins. Síðustu daga hefur bærinn verið undir stöðugum sprengikúluárásum frá aðskilnaðarsinnum í tilræði til að ná svæðinu á sitt vald. Rannsókn Amnesty International bendir til að sumar árásir geti talist vera handahófskenndar.
Íbúafjöldinn hefur minnkað frá 25 þúsund niður í 7 þúsund. Hersveitir Úkraínu hafa haldið því fram að þær hafi flutt 2000 manns af svæðinu frá 28. janúar. Eini vegurinn úr bænum er undir stöðugum sprengikúluárásum sem hefur gert þeim íbúum sem eftir eru enn erfiðara um vik að flýja.
Úkraínsk yfirvöld verða að grípa til allra mögulega ráðstafana til að vernda íbúa sem búa í bæjum og þorpum sem verða fyrir árásum, þar með talið að aðstoða við að flytja á brott þá sem óska þess að flýja á öruggari svæði. Aðskilnaðarasinnar verða að leyfa óbreyttum borgurum að yfirgefa svæðið og hætta öllum handahófskenndum árásum, sagði Joanne Mariner.
Samkvæmt áætluðum tölum frá Sameinuðu þjóðunum, þá hafa 5100 manns fallið í átökum í austurhluta Úkraínu og 900 þúsund manns hafa flúið heimili sín síðan í apríl 2014. Núverandi átök eru einu verstu átökin síðan var skrifað undir fallvalt vopnahlé fyrir fimm mánuðum síðan. Á sama tíma virðist sem að tilraun til að hefja friðarviðræður á ný í Hvíta-Rússlandi hafi runnið út í sandinn þar sem helstu leiðtogar aðskilnaðarsinna mættu ekki og ásakanir samningsaðila gengu á víxl. Skortur á viðleitni til að vernda óbreytta borgara er sláandi. Báðir aðilar í átökunum verða tafarlaust að stöðva allar handahófskenndar árásir til og frá borgaralegum svæðum og alþjóðasamfélagið þarf að auka þrýsting um að því sé framfylgt.
