Um Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og hugtakið „smáríki”

Kevin Whelan starfsmaður Amnesty International í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf heldur því fram í grein sinni að ekkert ríki sé smáríki. Enn fremur geti ekkert ríki í mannréttindaráðinu kallað sig eða verið kallað smáríki. Tilefni greinarinnar er þátttaka og seta Íslands í mannréttindaráðinu en setu Íslands lauk um seinustu áramót. Greinin hefur verið þýdd úr ensku yfir á íslensku.

Ég heyrði eitt sinn diplómata hrósað, „Sem lítið ríki, þá hefur landið þitt haft gríðarleg áhrif á þetta málefni.” Svarið var: „Takk, en við kunnum betur að meta skilgreininguna „ekki stórt”.“ Þetta vakti hlátur og afsökunarbeiðni þar sem í þessum orðum fólst, óviljandi, eilítil móðgun. En þetta svar fangaði mikilvægt atriði sem sannaði sig á síðasta ári í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, „stór” ríki eru ekki þau einu sem geta haft mikil áhrif innan fjölþjóðlegs kerfis eins og Mannréttindaráðið er.

Tökum Ísland sem dæmi. Þessi norræna eyþjóð tók sæti í Mannréttindaráðinu árið 2018 til að fylla í það skarð sem myndaðist þegar Bandaríkin sögðu sig úr ráðinu. Þegar Bandaríkin yfirgáfu ráðið og Ísland tók sæti þar er óhætt að segja að  öll athyglin hafi beinst að ríkinu sem var að hætta, frekar en ríkinu sem tók sæti í stað þess. Enda eru Bandaríkin með fast sæti í Öryggisráði SÞ og eru langt um stærra efnahags- og hernaðarveldi með næstum því þúsundfalt fleiri íbúa en Ísland árið 2019.

Samt var það Ísland, ekki Bandaríkin, sem varð fyrsta ríkið frá upphafi til þess að leiða sameiginlegar aðgerðir í ráðinu til að ávíta Sádi-Arabíu vegna bágs mannréttindaástands í landinu.

Hinn 7. mars lagði Ísland fram yfirlýsingu, ásamt 36 öðrum ríkjum, þar sem ríkin lýstu áhyggjum af misbeitingu hryðjuverkalaga gegn almenningi; kröfðust lausnar allra einstaklinga sem eru í haldi fyrir að nýta sín grundvallarréttindi, þar á meðal Loujain al-Hathloul, Eman al-Nafjan, Aziza al-Yousef, Nassima al-Sadah, Samar Badawi, Nouf Abdelaziz, Hatoon al-Fassi, Mohammed Al-Bajadi, Amal Al-Harbi og Shadan al-Anezi; fordæmdu morðið á Jamal Khashoggi og kölluðu eftir skjótum, skilvirkum, ítarlegum, óháðum, hlutlausum og gagnsæjum rannsóknum. Að auki var kallað eftir því að Sádi-Arabía gerði mikilvægar ráðstafanir til að tryggja að almenningur, þar á meðal mannréttindasinnar og blaðafólk, gæti að fullu nýtt rétt sinn til tjáningar, skoðana og fundarhalds, þ.m.t. á netinu, án ótta um refsiaðgerðir.

Sem starfandi talsmaður mannréttinda innan þessa fjölþjóðlega kerfis þá get ég ekki annað en bent á hversu gífurlega mikilvæg slík yfirlýsing er sem fjöldi ríkja sameinaðist um, þar með talin öll aðildarríki Evrópusambandsins.

Gleymum ekki að Sádi-Arabía náði eitt sinn að þvinga aðalframkvæmdastjóra og æðsta embættismann Sameinuðu þjóðanna til að fjarlægja landið af lista yfir aðila sem í vopnuðum átökum myrða og ræna börnum. Hneppa þau í ánauð sem hermenn eða ráðast á skóla og sjúkrahús.

Gleymum heldur ekki að fyrir ekki svo löngu síðan fór stór hópur Sádi-arabískra embættismanna til Tyrklands þar sem þeir biðu eftir blaðamanninum Jamal Kashoggi á ræðismannaskrifstofunni í Istanbúl, myrtu hann og reyndu að fela öll ummerki um örlög hans.Stuttu síðar sendi forseti Bandaríkjanna frá sér sláandi yfirlýsingu þar sem hann forgangsraðaði vopna- og olíusölu fram yfir nauðsyn þess að framkvæma sjálfstæða alþjóðlega rannsókn á glæpnum eða taka á kerfisbundinni og skipulagðri herferð stjórnvalda í Sádi-Arabíu gegn borgaralegu samfélagi sem morðið á Jamal Kashoggi er lýsandi dæmi um.

Það að Ísland hafi verið viljugt til að stíga fram við þessar aðstæður og fleiri lönd hafi verið tilbúin til að taka þátt í því var gríðarlega mikilvægt. Það sýndi að lönd eins og Sádi-Arabía eru og ættu að vera undir smásjá. Það varpaði ljósi á ástand mannréttinda í landinu og opnaði dyrnar fyrir frekari eftirfylgni á alþjóðavettvangi. Á septemberþingi Mannréttindaráðsins fylgdi Ástralía málinu eftir með annarri sameiginlegri yfirlýsingu um ástandið í Sádi-Arabíu.

Auðvitað er mannréttindaástandið í Sádi-Arabíu enn hræðilegt. En þessi þróun hefur engu að síður haft mælanleg áhrif. Frá því að fyrsta sameiginlega yfirlýsingin var send út í mars hafa að minnsta kosti sjö baráttukonur fyrir mannréttindum verið leystar úr haldi með skilyrðum. Í ágúst voru tilkynntar miklar umbætur sem, ef innleiddar, gætu gefið konum aukið frelsi frá kúgandi kerfi sem skyldar konur til að lúta forsjá karlmanna.