Við stöndum vörð um mannréttindi, réttlæti, frelsi og reisn
Amnesty International er alþjóðleg mannréttindahreyfing rúmlega tíu milljóna einstaklinga í meira en 150 löndum. Við berjumst fyrir heimi þar sem sérhver einstaklingur nýtur mannréttinda sinna.
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er undirstaða alls starfs Amnesty International.
Mannréttindi eru grundvallaréttindi okkar allra
Starfið okkar
Amnesty International er stærsta mannréttindahreyfing í heimi. Kjarni starfsins felst í að berjast gegn mannréttindabrotum um heim allan. Við gerum ítarlegar rannsóknir, þrýstum á stjórnvöld með herferðum, aðgerðum og undirskriftasöfnunum og fræðum fólk um mannréttindi.
Alþjóðastarf Amnesty International byggist nær eingöngu á styrktarframlagi einstaklinga. Það gerir okkur kleift að vera óháð pólitískum, trúarlegum og efnahagslegum hagsmunum. Það er mikilvægt til að geta gagnrýnt stjórnvöld og stórfyrirtæki hvar sem er í heiminum.
Íslandsdeild Amnesty International reiðir sig eingöngu á frjáls framlög frá einstaklingum. Við þrýstum á innlend og erlend stjórnvöld og köllum eftir því að þau virði mannréttindi í hvívetna.
Helstu verkefni Íslandsdeildar Amnesty International:
- Loftlagsbreytingar og mannréttindi
- Tjáningarfrelsið
- Dauðarefsingin
- Einangrunarvist fanga í gæsluvarðhaldi á Íslandi
- Réttindi flóttafólks
Kynntu þér starfið
Kynntu þér ársskýrslur Íslandsdeildar Amnesty International
Sagan okkar
Upphafið að alþjóðahreyfingu Amnesty International var grein Peter Benenson, Gleymdu fangarnir, sem birtist í Observer þann 28. maí 1961. Í greininni var kallað eftir því að fólk gripi til aðgerða fyrir einstaklinga sem væru í fangelsi fyrir skoðanir sínar.
Ákall hans snerti fólk sem sameinaðist í baráttunni fyrir réttlæti og frelsi. Um sumarið var haldinn alþjóðlegur fundur og til urðu mannréttindasamtökin Amnesty International.
Peter Benenson kveikti á fyrsta Amnesty-kertinu í London á alþjóðlega mannréttindadeginum, 10. desember sama ár. Kertið er eitt helsta tákn Amnesty sem vonarljós fyrir þolendur mannréttindabrota.
Íslandsdeild Amnesty International var formlega stofnuð í Norræna húsinu 15. september árið 1974. Það var fyrir dugnað og elju þeirra sem stofnuðu deildina að hún náði að festa sig í sessi. Deildin hefur vaxið og stækkað í gegnum árin þökk sé dyggum stuðningi fólks á Íslandi.
Stjórnin okkar
Stjórn Íslandsdeildar Amnesty International tekur virkan þátt í að móta starf deildarinnar. Stjórnarmeðlimir eru sjö talsins og starfa í sjálfboðavinnu í þágu mannréttinda. Stjórnarmeðlimir eru kosnir til tveggja ára í senn á árlegum aðalfundi sem er venjulega í mars.
Öllum er velkomið að bjóða fram krafta sína.

Varaformaður
Albert Björn Lúðvígsson

Varastjórn
Donika Kolica

Formaður
Eva Einarsdóttir

Ritari
G. Pétur Matthíasson

Meðstjórnandi
Helena Hafsteinsdóttir

Meðstjórnandi
Harpa Pétursdóttir

Varastjórn
Tinna Ingvarsdóttir
Starfsfólkið okkar
Amnesty International er með skrifstofur í um 70 löndum en nær til rúmlega 150 landa. Íslandsdeild Amnesty International er með stærri landsdeildum miðað við íbúafjölda.
Fjöldi starfsfólks á skrifstofunni er sjö.







