Birting – samtök ungs fólks, ásamt öðrum, standa fyrir uppákomu gegn ofbeldi á Ingólfstorgi næstkomandi föstudag kl. 17. Ofbeldi í hvaða mynd verður þar mótmælt.
Íslandsdeild Amnesty International hvetur þá félaga deildarinnar, sem tök hafa á, að mæta á Ingólfstorg og sýna hug sinn gagnvart ofbeldi í hvaða mynd sem er. Samtökin vinna gegn ofbeldi af ýmsum toga allt árið um kring. Nægir þar að nefna pyndingar, dauðarefsingar, “mannshvörf”, og aftökur án dóms og laga. Eftirfarandi er fréttatilkynning frá Birtingu og Reykjavíkurborg:
Ofbeldi hefur verið mikið í umræðunni í samfélaginu síðustu vikuna eða
svo. Það má segja að sú samstaða sem Akureyringar sýndu er þeir mættu
á Ráðhústorg síðastliðinn föstudag og lyftu rauðum spjöldum til höfuðs
ofbeldi hafi kveikt neista hjá þjóðinni og hefur landinn sýnt mikinn
áhuga á þessu verðuga máli.
Birting og Reykjavíkurborg standa fyrir samstöðu gegn ofbeldi á
Ingólfstorgi næstkomandi föstudag kl. 17. Þar verður ofbeldi gefið
rauða spjaldið líkt og gert var á Akureyri. Fjöldinn mun sameinast í
þriggja mínútna þögn gegn öllu ofbeldi. Það skal áréttað að við viljum
ekki beina spjótum okkar gegn einni tegund ofbeldis, s.s. ofbeldi
tengdu fíkniefnum. Þó að þess konar ofbeldi hafi verið mest áberandi
upp á síðkastið á ekkert ofbeldi rétt á sér. Við gefum ofbeldi gegn
konum og börnum, ofbeldi í formi eineltis og ofbeldi í hvers konar
formi sem er rauða spjaldið.
Við skorum á alla þá sem vettlingi geta valdið að mæta og sýna
samstöðu. Fólk hefur komið að máli við okkur og hneykslast yfir því
hversu bjartsýn við séum að halda að menn hætti að beita ofbeldi þegar
við efnum til samkomu af þessu tagi. Það er þó að sjálfsögðu ekki
markmið okkar. Við viljum öllu heldur koma af stað vakningu meðal
almennings. Fólk má ekki láta ofbeldi afskipt, það má ekki viðgangast!
Mætum því öll á Ingólfstorg föstudaginn 6. maí kl. 17.00.
Birting – samtök ungs fólks
Reykjavíkurborg
