Kúgun og ofbeldi ríkisvaldsins munu áfram verða við lýði í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku árið 2012 nema ríkisstjórnir á svæðinu og alþjóðasamfélagið vakni til meðvitundar um þær breytingar, sem krafist er.
Frá mótmælum í Mið-Austurlöndum
Kúgun og ofbeldi ríkisvaldsins munu áfram verða við lýði í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku árið 2012 nema ríkisstjórnir á svæðinu og alþjóðasamfélagið vakni til meðvitundar um þær breytingar, sem krafist er. Ný skýrsla Amnesty International, Uppreisnarár: ástand mannréttinda í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku (Year of Rebellion: State of Human Rights in the Middle East and North Africa) fjallar um hina sögulegu viðburði á síðasta ári. Þar er lýst hvernig ríkisstjórnir á svæðinu beittu gríðarlegu ofbeldi til að verjast mikilli mótmælabylgju almennings, sem krafðist grundvallarumbóta. Í skýrslunni er því lýst að andófshreyfingin hafi ekki hvikað í viðleitni sinni til að ná fram grundvallarbreytingum.
Þrátt fyrir mikla bjartsýni í Norður-Afríku, í kjölfar þess að harðstjórum í Túnis, Egyptalandi og Líbýu var velt úr sessi, hafa grundvallarbreytingar ekki enn orðið sem tryggja almenning gegn kúgun. Í ríkjum, þar sem valdaskipti hafa ekki orðið, virðast stjórnvöld ákveðin í að halda í völd sín, stundum sama hver fórnarkostnaðurinn er í mannslífum og áliti.
Með fáum undantekningum virðast stjórnvöld ekki hafa áttað sig á að allt hefur breyst. Mótmælahreyfingarnar á svæðinu, þar sem ungt fólk hefur oft verið í fararbroddi og konur gegnt lykilhlutverki, hafa reynst harðgerðar, þrátt fyrir ótrúlega kúgun, oft á tíðum.
Andófsfólkið hefur sýnt að það lætur ekki blekkjast af málamyndaumbótum, þar sem litlar breytingar verða á framkomu lögreglu og hers í þeirra garð. Það vill raunhæfar breytingar á stjórn landa sinna og að þeir verði dregnir til ábyrgðar, sem gerst hafa sekir um glæpi.
Einörð barátta venjulegs fólks fyrir virðingu og réttlæti bregður vonarbirtu á árið 2012.
Viðbrögð alþjóðasamfélagsins og svæðisstofnana við þróuninni 2011 voru sundurleit.
Mannréttindi voru notuð sem réttlæting fyrir hernaðarlegri íhlutun í Líbýu, og öryggisráðið, vegna þrýstings frá Kína og Rússlandi sérstaklega, gat ekki komið sér saman um annað en máttlitla fordæmingu á ofbeldinu í Sýrlandi.
Þó Arababandalagið hafi verið fljótt til og vikið Líbýu úr bandalaginu í febrúar 2011 og síðar Sýrlandi og sent þangað eftirlitsmenn, kvað það sér ekki hljóðs þegar sádi-arabískir hermenn, í nafni svæðasamvinnu, voru sendir til Barein að brjóta andóf í landinu á bak aftur.
Stuðningur stórveldanna við baráttu venjulegs fólks á svæðinu hefur verið sundurlaus. Breytingarnar hafa orðið að mestu vegna aðgerða almennings, sem hefur þyrpst út á götur, ekki vegna áhrifa og íhlutunar erlendra stjórnvalda.
Hér er úrdráttur um ástandið í hverju landi fyrir sig:
Egyptaland
Herstjórnin í Egyptalandi lofaði ítrekað að uppfylla kröfur byltingarinnar á síðasta ári, en Amnesty International komst að því að hún er ábyrg fyrir margvíslegum mannréttindabrotum, sem í sumum tilvikum eru verri en þau sem framin voru í stjórnartíð Hosni Mubarak.
Herinn og öryggissveitir hafa bælt mótmæli niður af gríðarlegri hörku. Að minnsta kosti 84 hafa látist frá október til desember 2011 í þeim aðgerðum. Pyndingar hafa haldið áfram í varðhaldsvistun og réttað hefur verið yfir fleiri óbreyttum borgurum fyrir herrétti á einu ári en í 30 ára stjórnartíð Mubarak. Konur hafa mátt þola niðurlægjandi meðferð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þær taki þátt í mótmælum. Ráðist var inn á skrifstofur nokkurra egypskra og alþjóðlegra félagasamtaka í desember í þeim tilgangi, að því er virðist, að þagga niður í þeim sem gagnrýna stjórnvöld.
Búast má við að herstjórnin reyni áfram að takmarka rétt Egypta til að mótmæla og tjá skoðanir sínar með friðsamlegum hætti.
Túnis
Uppreisnin í Túnis hefur leitt til verulegra umbóta í mannréttindamálum, en margir telja að of hægt miði og fjölskyldur þeirra, sem létust í uppreisninni, bíða enn eftir að réttlætinu sé fullnægt.
Kosningar voru haldnar í október 2011 og í kjölfar þeirra var ný samsteypustjórn sett á laggirnar. Moncef Marzouki, sem er baráttumaður fyrir mannréttindum og fyrrum samviskufangi Amnesty International, er bráðabirgðaforseti landsins.
Miklu skiptir að Túnisbúar grípi tækifærið og skrifi nýja stjórnarskrá þar sem mannréttindi eru tryggð og jafn réttur fólks að lögum.
Líbýa
Mikil áhöld eru um hvort ný stjórnvöld geta hamið vopnaðar sveitir sem hjálpuðu til að sigra her Gaddafi og komið í veg fyrir sams konar brot og tíðkuðust í tíð fyrri stjórnvalda.
Þrátt fyrir að Þjóðarráð Líbýu hafi hvatt stuðningsfólk sitt til að forðast hefndarárásir, eru alvarleg brot sveitanna, sem börðust gegn Gaddafi, sjaldan fordæmd. Í nóvember 2011 fullyrtu Sameinuðu þjóðirnar að um 7.000 fangar væru í haldi í bráðabirgðafangelsum og ekki væri fyrirsjáanlegt að réttað yrði yfir þeim í bráð.
Sýrland
Sýrlenski herinn og leyniþjónustan eru ábyrg fyrir manndrápum og pyndingum sem jafngilda glæpum gegn mannkyni í viðleitni sinni til að hræða mótmælendur og andófsfólk og þagga niður í þeim. Um 200 dauðsföll í varðhaldsvist höfðu verið skráð í lok árs 2011, sem er yfir 40 falt meira en meðaltalið í Sýrlandi.
Jemen
Í Jemen héldu átökin um forsetaembættið áfram með frekari þjáningum fyrir íbúa landsins. Yfir 200 manns voru drepnir í tengslum við mótmælin en hundruð til viðbótar í vopnuðu átökum. Tugþúsundir þurftu að flýja ofbeldið.
Barein
Vonir voru bundnar við útgáfu óháðrar skýrslu alþjóðlegra sérfræðinga um ofbeldi í tengslum við mótmælin í landinu. Ekki var ljóst í árslok 2011 hver væri vilji stjórnvalda til að innleiða tillögur sérfræðinganna um umfangsmiklar úrbætur.
Sádi-Arabía
Sádi-arabíska ríkisstjórnin tilkynnti um umfangsmikla aukningu á ríkisútgjöldum til að koma í veg fyrir að mótmælin á svæðinu breiddust út til landsins. Þrátt fyrir það, og þrátt fyrir ný og umfangsmikil hryðjuverkalög, héldu mótmæli áfram í lok ársins, sérstaklega í austurhluta landsins.
Íran
Írönsk stjórnvöld héldu áfram að bæla niður andóf, takmarka frelsi fjölmiðla og réðust sérstaklega gegn blaðamönnum, bloggurum, sjálfstæðum verkalýðsleiðtogum og pólitískum baráttumönnum.
