Útrýming fátæktar er réttlætismál

Allt frá árinu 1987 hefur 17. október verið helgaður baráttunni gegn fátækt. Á þessum degi söfnuðust hundruð þúsunda manna saman á Trocadéro torginu í París til að sýna fórnarlömbum sárrar fátæktar og hungurs stuðning. Skilaboðin voru skýr.

Allt frá árinu 1987 hefur 17. október verið helgaður baráttunni gegn fátækt. Á þessum degi söfnuðust hundruð þúsunda manna saman á Trocadéro torginu í París til að sýna fórnarlömbum sárrar fátæktar og hungurs stuðning. Skilaboðin voru skýr. Fátækt er ekki óumflýjanlegt ástand heldur mannréttindabrot sem verður að uppræta.

Í ár er ekki hvað síst mikilvægt að huga að þeim sem búa við sárasta hungrið og mestu örbirgðina, í ljósi yfirstandandi fjármálakreppu sem nú skekur heimsbyggðina.

Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Með samþykkt svonefndra „Þúsaldarmarkmiða“ Sameinuðu þjóðanna á allsherjarþingi samtakanna í september árið 2000 var stefnt að því að hlutfall þess fólks sem býr við örbirgð og hungur yrði helmingi lægra árið 2015 en það var árið 1990. Sameinuðu þjóðirnar eru óravegu frá þessu meginmarkmiði nú þegar helmingur framkvæmatímans er liðinn. Ef fram heldur sem horfir munu markmiðin fyrst nást eftir 110 ár. (Félag Sameinuðu þjóðanna, www.2015.is.). Á sumum stöðum hefur fátækt jafnvel aukist síðan árið 1990 og er það raunin í Afríku, sérstaklega sunnan Sahara. Þar hefur atvinnuleysi aukist, landbúnaðarframleiðsla staðnað og fólk á besta aldri beðið lægri hlut fyrir alnæmi og/eða vegna átaka. Sem dæmi draga nú 313 milljónir Afríkubúa sunnan Sahara fram lífið á minna en einum dollara á dag, á móti 227 milljónum árið 1990. Ennfremur hefur sá fjöldi sem þjáist af hungri aukist í yfir 30 ríkjum á árunum 1997 til 2002, þar af eru fjórtán í Afríku sunnan Sahara. (Alls búa 1.7 milljarðar manna við matarskort í heiminum og þar af eru 960 milljónir vannærðir). Þessar tölur tala sínu máli og að baki þeim eru einstaklingar sem þjást og líða alvarlegan skort.

Rjúfa þarf vítahringinn

Ósjaldan leita forystumenn ríkja skýringa á fátækt með vísan í náttúruhörmungar og sjúkdóma og firra sig þannig ábyrgð. En ef grannt er skoðað koma fleiri skýringar til og ber mannréttindabrot þar hæst. Hvort heldur er með aðgerðum eða aðgerðaleysi bera stjórnvöld, stofnanir og fyrirtæki ábyrgð á ýmsum réttindabrotum sem leiða til fátæktar. Skortur á aðgengi að menntun, vinnu, öryggi, heilsugæslu og heimili eru skýr dæmi um mannréttindabrot sem geta leitt til fátæktar og/eða viðhaldið henni. Fátækt er þannig skertur aðgangur að þeim úrræðum, efnislegum sem öðrum, er gera fólki kleift að lifa lífi sínu með reisn. Mannréttindabrot geta einnig verið afleiðing fátæktar þannig að um vítahring er að ræða sem verður að rjúfa.

Til að raunverulegur árangur náist í baráttunni gegn fátækt verður að draga stjórnvöld til ábyrgðar á mannréttindabrotum. Viðurkenning á því að mannréttindaskyldur eru ekki háðar landamærum er mjög mikilvæg í þessu tilliti því rétturinn til mannlegrar reisnar og mannsæmandi lífs verður aðeins veruleiki fárra á meðan stór hluti mannkyns býr við örbirgð og hungur.

Algildi og ódeilanleiki mannréttinda

Ríki hafa áhrif á mannréttindi á margvíslega vegu. Skýrustu dæmin varða fjárfestingar eða fjárhagslegan stuðning til uppbyggingarverkefna í löndum þar sem mannréttindi eru brotin, vangetu ríkja til að stýra aðgerðum fyrirtækjum sem hafa höfuðstöðvar innan þeirra lögsögu, stuðning við ýmis þróunarverkefni sem hunsa eða gera lítið úr mannréttindavanda og viðskiptastefnu sem grefur undan efnahagslegum eða félagslegum réttindum fólks í öðrum löndum. Í þessu samhengi skiptir miklu að ríki heims samþykki valfrjálsan viðauka við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og staðfesti þannig ódeilanleika og algildi allra mannréttinda. Ennfremur þarf alþjóðasamfélagið að samþykkja lagalega bindandi ákvæði sem tryggja að fyrirtæki séu kölluð til ábyrgðar á mannréttindabrotum enda leiðir refsileysi aðeins til þess að fórnarlömb slíkra brota verða sífellt fleiri. Skoða þarf hvað hindrar aðgengi fólks að menntun, heilsu, húsnæði, matvælum og hreinlæti, og rífa þessa múra niður sem halda fólki föngnu í fátækt. Oft á tíðum eru hindranirnar ekki fjárhagslegar, heldur félagslegar. Mismunun og jöðrun koma jafnan í veg fyrir að fólk hafi aðgang að úrræðum sem gera fólki fært að lifa mannsæmandi lífi.

Fátækt er stærsta áskorunin í dag

Allar manneskjur eiga rétt á að njóta allra mannréttinda á þeim grundvelli einum að vera manneskja. Engu að síður er stórum hluta mannkyns mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar, kynhneigðar, þjóðarbrots, skorts á ríkisborgararétti, heilsubrests, fötlunar eða fátæktar. Sumum hópum er mismunað á grundvelli margra ólíkra þátta, eins og t.d. konum sem víða er ekki aðeins mismunað í lagalegu tilliti, heldur einnig í félagslegu. Þar sem meirihluti þeirra sem lifa við sára fátækt eru konur verður að leggja sérstaka áherslu á aðgengi þeirra að upplýsingum um getnaðarvarnir og mæðraheilsu og tryggja að konur sem ganga með barni hafi aðgang að bráðamóttöku. Síðast en ekki síst þurfa hinir fátæku að vera virkir þátttakendur í allri ákvarðanatöku sem hefur áhrif á líf þeirra. Rödd þeirra verður að heyrast og þarfir þeirra að vera virtar, enda leiðir slíkt mun frekar til langvarandi lausna á vanda sem snertir hina fátæku.

Þeir sem búa við sára fátækt lýsa oft ástandi sínu þannig að aðstæður þeirra séu ósýnilegar öðrum, að þeir hafi enga rödd, og séu undaskildir allri ákvarðanatöku sem varðar líf þeirra og lífsframvindu. Fátæku fólki er oft meinuð þátttaka í stjórnmálum á öllum stigum. Skortur á híbýlum eða ríkisborgararétti, ólæsi, kynjamismunun og/eða félagsleg aðgreining er meðal þeirra atriða sem gerir fátækum ómögulegt að móta pólitískar ákvarðanir. Þá er upplýsingum um áhrif ýmiss konar iðnaðar á landsvæði fátækra haldið leyndum og eins upplýsinum um brottflutinga vegna „uppbyggingarstarfs“. Þekkingu á því hvernig unnt er að koma í veg fyrir óæskilega þungun eða lífshættulega sjúkdóma er oft haldið til haga fyrir þá sem eru efnameiri og aðgangur að getnaðarvörnum fyrir konur er oft takmarkaður við samþykki maka.

Mismunun og hunsun á virkri þátttöku fátækra leiðir ekki aðeins til óupplýstra ákvarðana heldur rænir þá réttinum að læra af ákvarðanaferlinu. Með því móti eiga þeir sem búa við örbirgð minni möguleika á að ná valdi á lífi sínu og aðstæðum.

Fátækt er stærsta áskorun mannkyns í dag  áskorunin sem mannkynið þarf að horfast í augu við í dag og horfa þarf á hana með gleraugum mannréttinda. Með því að breyta umræðunni um fátækt og tengja hana við mannréttindi færist þungi baráttunnar frá góðgerðastarfi yfir á skyldur ríkja og ýtir á valdshafa að hrinda í framkvæmd áætlunum sem koma þeim best sem verst eru settir og bera hag þeirra er verst eru settir fyrir brjósti.

Eins og Nelson Mandela bendir á þá er „fátækt ekki náttúrulegt fyrirbæri, ekki frekar en þrælahald eða kynþáttaaðskilnaður. Fátækt verður til af manna völdum og það er á þeirra valdi að útrýma henni. Útrýming fátæktar er ekki góðverk heldur sjálfsagt réttlætismál.“