Verzlunarskóli Íslands og Menntaskólinn í Reykjavík söfnuðu flestum undirskriftum!

Í lok síðasta árs efndi Íslandsdeild Amnesty International til samkeppni meðal framhaldsskóla landsins um besta árangurinn á bréfamaraþoni samtakanna í þágu verndar og virðingar mannréttinda víðs vegar um heiminn

Í lok síðasta árs efndi Íslandsdeild Amnesty International til samkeppni meðal framhaldsskóla landsins um besta árangurinn á bréfamaraþoni samtakanna í þágu verndar og virðingar mannréttinda víðs vegar um heiminn. Eftirfarandi fimmtán framhaldsskólar skráðu sig til leiks, Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði, Framhaldsskólinn á Laugum, Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ,Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskóli Borgarfjarðar, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Sund og Verzlunarskóli Íslands.  

Árangur skólanna fór fram úr allra björtustu vonum en samtals söfnuðu menntskælingar 31.391 undirskriftum á aðgerðakort til tólf landa þar sem mannréttindi eru fótumtroðin.

Nemendur við Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Laugalækjarskóla tóku einnig þátt í bréfamaraþoninu og söfnuðu samtals 1.357 undirskriftum.

Nemendur við Verzlunarskóla Íslands söfnuðu flestum undirskriftum á aðgerðakort, annað árið í röð og söfnuðu þeir samtals 9.622 undirskriftum á aðgerðakort þar sem þrýst var á yfirvöld að gera úrbætur í mannréttindamálum. Menntaskólinn í Reykjavík náði besta árangrinum miðað við nemendafjölda og söfnuðu nemendur skólans 8.081 undirskriftum í þágu virðingar og verndar mannréttinda víðs vegar um heiminn. Nemendur við Menntaskólann í Hamrahlíð söfnuðu 5.034 undirskriftum á aðgerðakort til stjórnvalda sem fótumtroða mannréttinda.

Árangur framhaldsskólanema mælist ekki aðeins í fjölda undirritaðra korta.Þeir, ásamt milljónum annarra um heim allan höfðu raunveruleg áhrif á líf fjölda fólks.

Nemendur skrifuðu meðal annars fjölda bréfa vegna mannréttindasinnans Liu Ping sem var dæmd í sex og hálfs árs fangelsi árið 2014 eftir að hafa skipulagt viðburð þar sem kallað var eftir því að kínversk stjórnvöld hertu baráttu gegn spillingu. Í lok desember fékk Liao Minyuedóttir Liu Ping í fyrsta sinn leyfi frá yfirvöldum til að heimsækja móður sína í fangelsi en talið er þakka megi alþjóðlegum þrýstingi á bréfamaraþoninu þetta jákvæða skref. Liao Minyuesendi eftirfarandi skilaboð að gefnu tilefni: „Ég er djúpt snortin vegna allra aðgerðana sem þið gripuð til fyrir móður mína. Ég vil senda þakkir til allra sem börðust fyrir máli hennar.“

Menntskælingar gripu einnig til aðgerða vegna Sádí-arabíska aðgerðasinnans Raif Badawi, sem dæmdur var í tíu ára fangelsi og til að sæta 1000 svipuhöggum í maí á síðasta ári, fyrir það eitt að stofna vefsíðu helgaða frjálslyndi. Raif hefur nú þegar þurft að þola 50 svipuhögg og sagði sjónarvottur að Raif Badawi hafi ekki sagt neitt þegar höggin dundu á honum en augljóst hafi verið að hann hafi kvalist mikið. Eiginkona Raif, Ensaf Heidar, lét eftirfarandi orð falla í kjölfar bréfamaraþonsins: „Ég get ekki lýst nægilega vel þeim tilfinningum sem fylgja því að vakna einn daginn og uppgötva að allur heimurinn er að fjalla um mál Raif. Það eru mjög fallegar tilfinningar. Stundum þegar Raif hringdi í mig úr fangelsinu greindi ég honum frá öllu því sem Amnesty International hefur gert í máli hans. Ég minnist þess að í einu slíku símtali brast Raif í grát af gleði og sagði við mig: Ensaf, hvernig get ég þakkað öllu þessu fólki sem hefur stutt mig; mig langar til að þakka hverju og einu þeirra…Við þökkum ykkur öllum sem gripuð til aðgerða vegna Raif frá dýpstu hjartarótum. Von okkar nú er að Raif verði leystur úr haldi og bundið verði endi á þjáningar okkar“.

Fyrir hönd Íslandsdeildar Amnesty International afhentu Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri, og Bryndís Bjarnadóttir herferða- og aðgerðastjóri nemendum við Menntaskólann í Reykjavík viðurkenningu og gjöf frá deildinni við hátíðlega athöfn þann 12. febrúar í hátíðarsal skólans.

Mánudaginn 16. febrúar verður nemendum Verzlunarskólans afhentur farandbikar sem Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður hannaði.

Nemendur í framhaldsskólum landsins skrifuðu tæplega helming allra þeirra bréfa sem send voru frá Íslandi til stuðnings þolendum mannréttindabrota. Í kjölfar bréfamaraþons Íslandsdeildar Amnesty International 2014 voru send rúmlega 70.000 bréf, kort og undirskriftir til stjórnvalda víða um heim sem og persónulegar kveðjur til þolenda mannréttindabrota.