Viðburður á alþjóðlega flóttamannadaginn

Í tilefni alþjóðlega Flóttamannadagsins, sem er næstkomandi mánudag 20. júní, munu Íslandsdeild Amnesty International, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Rauði Krossinn efna til viðburða í miðborg Reykjavíkur frá kl 15-18 til að vekja athygli á þeim veruleika sem blasir við flóttafólki bæði hér heima og um heim allan.

Í tilefni alþjóðlega Flóttamannadagsins, sem er næstkomandi mánudag 20. júní, munu Íslandsdeild Amnesty International, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Rauði Krossinn efna til viðburða í miðborg Reykjavíkur frá kl 15:00-18:00 til að vekja athygli á þeim veruleika sem blasir við flóttafólki bæði hér heima og um heim allan. Eins og staðan er í dag eru um 60 milljón manns í heiminum á flótta undan stríðsátökum, ofsóknum og annarri vá. Það er fólk sem oft hefur glatað öllu, nema lífinu sjálfu. Hluti þess leitar til Íslands eftir vernd, öryggi og skjóli.
Á viðburðunum verður leitast við að svara hinum ýmsu spurningum sem til staðar eru um flóttafólk, t.d. eins og:

Hvers konar fólk er þetta?
Hvaðan kemur það?
Hvað bíður þess á flóttanum?
Hvaða leiðir eru þeim færar?
Hvaða hugmyndir hefur það um lífið og tilveruna?
Hvað gerir það á Íslandi?

Þá er viðhorfum til flóttafólks gerð skil og litið til þess misræmis sem virðist ríkja á milli þeirra viðhorfa sem almenningur hefur til fólks á flótta og þeirra sem rata í og einkenna opinbera umræðu um málefni þess, en nýleg könnun sem Amnesty International lét gera sýnir að meirihluti fólks (80%) víða um heim myndi taka flóttafólki með opnum örmum.
Viðburðirnir munu fara fram á tveimur stöðum í miðbæ Reykjavíkur:
Við Tjörnina í Reykjavík mun Íslandsdeild Amnesty International vera með táknræna aðgerð þar sem vakin verður athygli á þeirri hættu sem margir flóttamenn þurfa að leggja sig í til að komast yfir Miðjarðarhafið í von um betra líf. Þar munu ungliðar Amnesty bjóða gestum og gangandi að skrifa undir undirskriftarlista þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að tryggja flóttafólki vegabréfsheimild með því að opna fyrir löglegar og öruggar leiðir og tryggja að öll ferli í kringum umsóknir og flutninga gangi snurðulaust, fljótt og skilvirkt fyrir sig.
Á Austurvelli verða svo Rauði krossinn og Mannréttindaskrifstofa Íslands, ásamt hælisleitendum og flóttafólki, að spjalla við gesti og gangandi og dreifa fróðleiksmolum um flóttamenn og hælisleitendur, stöðu þeirra, vanda, drauma og vonir.