Viðurkennið, borgið, hreinsið!

Nýstofnuð Ungliðahreyfing Íslandsdeildar AI stendur fyrir „hreinsunaraðgerð“ á Shell bensínstöðinni við Vesturlandsveg þann 22. apríl næstkomandi.

 

Nýstofnuð Ungliðahreyfing Íslandsdeildar AI stendur fyrir „hreinsunaraðgerð“ á Shell bensínstöðinni við Vesturlandsveg þann 22. apríl næstkomandi. Með aðgerðinni vilja ungliðar samtakanna vekja athygli á umhverfisspjöllum og mannréttindabrotum sem hlotist hafa af olíuvinnslu Shell á óseyrum Nígerfljóts í Nígeríu og krefja höfuðstöðvar Shell úrbóta.

Rétturinn til heilsusamlegs umhverfis eru mannréttindi og Amnesty International krefst þess að olíufyrirtækið Shell geri hreint fyrir sínum dyrum og viðurkenni áhrif olíumengunar á mannréttindi íbúa á óseyrum Nígerfljóts. Samtökin krefjast þess jafnframt að olíumenguð svæði verði hreinsuð að fullu, samfélög hljóti bætur fyrir skaða af völdum olíumengunar, lögboðið og reglubundið mat á áhrifum olíuvinnslu á mannréttindi íbúa fari fram, og að þeir hafi fullan aðgang að upplýsingum um áhrifin á umhverfi sitt og mannréttindi.

Árið 2008 hlaust gífurleg mengun af tveimur stórum olíulekum í Bodó í Ogonihéraði. Shell brást þeirri ábyrgðarskyldu sinni að stöðva lekann tafarlaust. Olíulekarnir voru ekki stöðvaðir fyrr en að mörgum vikum liðnum og rúmum þremur árum síðar hafði Shell ekki sinnt því að hreinsa olíumengunina á svæðinu.Olíulekarnir í Bodó eru aðeins eitt af þúsundum dæma um leka af völdum olíuvinnslu á svæðinu.

 

Íslandsdeild Amnesty International tekur þátt í alþjóðlegri herferð þar sem ákall verður sent til framkvæmdastjóra Shell í Hollandi, Peter Voser, og hann krafinn um að Shell gangist við ábyrgð sinni á olíumengun á óseyrum Nígerfljóts og greiði í upphafi 1 milljarð Bandaríkjadala í sérstakan sjóð sem nýttur verður til að hreinsa svæðið. Einnig snúast kröfurnar um að Shell tryggi lögboðið og reglubundið mat á áhrifum olíuvinnslu á mannréttindi íbúa á óseyrum Nígerfljóts, sjái til þess að öll menguð svæði verði hreinsuð að fullu og greiði sanngjarnar skaðabætur þeim sem beðið hafa skaða af olíuvinnslu á svæðinu.

 

Hægt er að taka þátt í aðgerðinni og senda ákall til Peter Voser á: http://www.netakall.is/

 

 

Íslandsdeildin mun ennfremur standa fyrir ljósmyndasýningu þann 28. apríl næstkomandi í Kringlunni, til að vekja athygli á herferðinni. Ljósmyndirnar sýna þau miklu umhverfispjöll og mannréttindabrot sem hlotist hafa af olíuvinnslu Shell við óseyra Nígerfljóts.

 

TIL NÁNARI GLÖGGVUNAR:

Árið 1956 hóf stórfyrirtækið Shell fyrst að vinna olíu á óseyrum Nígerfljóts í Nígeríu en 95% af útflutningstekjum landsins byggja á olíu- og gasvinnslu. Þrátt fyrir að olíuvinnsla Shell í Nígeríu hafi skilað ríkinu auknum tekjum lifa 70% almennra borgara undir fátæktarmörkum.

 

Gífurleg olíumengun og umhverfisspjöll hafa hlotist af starfsemi Shell sem hefur alvarleg heilsuspillandi áhrif á íbúanna og ógnar lífsviðurværi þeirra, þar á meðal fiskveiði og landbúnaði. Jarðvegur, vatn og andrúmsloft er mengað vegna olíuiðnaðar og réttur íbúa á svæðinu til mannsæmandi lífs er fótum troðinn. Afleiðingarnar eru aukin fátækt og örbirgð.

Í ágúst 2011 komst Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna að þeirri niðurstöðu að Shell hefði árum saman brugðist þeirri skyldu sinni að hreinsa olíumengun í Ogonihéraði. Að mati stofnunarinnar mun það taka 25 ár að endurbæta svæðið sökum þess hve alvarleg mengunin er. Olíupípur liggja ennþá víða um landið og olíulekar eru tíðir og alvarlegir. Umhverfisstofnun SÞ hefur lagt til að stjórnvöld í Nígeríu stofni sérstakan sjóð sem nýttur verði til að hefja hreinsun í Bodó í Ogonihéraði. Lagt er til að Shell greiði í upphafi 1 milljarð Bandaríkjadala í sjóðinn.