Vilt þú fræðast um réttindi flóttafólks?

Amnesty International hefur ýtt úr vör netnámskeiðinu Mannréttindi: Réttindi flóttafólks. Námskeiðið gerir fólki kleift að fræðast á sínum eigin hraða um réttindi fólks á flótta og að efla færni sína í baráttu fyrir réttindum flóttafólks.

Amnesty International hefur ýtt úr vör netnámskeiðinu Mannréttindi: Réttindi flóttafólks. Námskeiðið gerir fólki kleift að fræðast á sínum eigin hraða um réttindi fólks á flótta og að efla færni sína í baráttu fyrir réttindum flóttafólks.
 
Hægt er að horfa á stutt myndband um námskeiðið hér.
 
Þetta er annað netnámskeiðið sem Amnesty International hefur gert en árið 2015 buðu samtökin upp á námskeiðið Mannréttindi: Tjáningarfrelsið. Markmiðið er að ná til 55 þúsund þátttakenda um heim allan en nú þegar hafa yfir 35 þúsund manns víða að úr heiminum tekið þátt.
Námskeiðið hefur það markmið að auka skilning þátttakenda á réttindum flóttafólks og kynna hvernig hægt sé að taka þátt í verndun og eflingu réttinda þessa hóps. Þá munu þátttakendur einnig fræðast um hlutverk stjórnvalda þegar kemur að mannréttindabrotum gegn flóttafólki ásamt því hvernig á að standa upp á móti fordómum gegn hælisleitendum og flóttafólki.
Námskeiðið samanstendur af fjórum hlutum sem hver um sig tekur 3-5 klukkustundir. Mögulegt er að velja aðeins ákveðna þætti námskeiðsins og þannig stytta lengd þess. Þáttakendur geta því farið í gegnum námskeiðið á þeim hraða sem þeir vilja. Á námskeiðinu horfa þátttakendur á stutt myndbönd, gera gagnvirkar æfingar og fara í vefleiðangra. Þá skapar námskeiðið vettvang fyrir þátttakendur alls staðar að úr heiminum til að tengjast og læra hver af öðrum, deila upplýsingum um stöðu flóttafólks í heimalandi sínu sem og fræðast um stöðuna í öðrum löndum.
Ert þú til í gagnvirka fræðslu um mannréttindi á netinu og að eiga í samskiptum við fólk víða um heim? Með þátttöku munt þú verða hluti af alþjóðlegu samfélagi sem berst fyrir réttindum flóttafólks í heiminum.
Námskeiðið er aðgengilegt á ensku, frönsku og spænsku og hentar öllum eldri en 16 ára sem hafa áhuga á að kynna sér betur réttindi flóttafólks. Námskeiðið er opið til 16. nóvember 2017.
Áhugasamir geta skráð sig á námskeiðið á vefsíðunni www.edx.org en bæði er hægt að ljúka námskeiðinu með viðurkenningu (verð: $49) eða án (ókeypis).