Vinnustaðir söfnuðu rúmlega 4000 undirskriftum á Bréfamaraþoni Amnesty International 2015

Aldrei fyrr hafa jafn margir Íslendingar stutt
mannréttindabaráttu Íslandsdeildar Amnesty International eins og með aðgerðum
sínum á Bréfamaraþoni samtakanna árið 2015. 

.

Aldrei fyrr hafa jafn margir Íslendingar stutt mannréttindabaráttu Íslandsdeildar Amnesty International eins og með aðgerðum sínum á Bréfamaraþoni samtakanna árið 2015. Hátt í 8000 Íslendingar stóðu á bak við 80.064 undirskriftir, sms- og netákallsaðgerðir og stuðningskort til þolenda mannréttindabrota. Þetta er langbesti árangurinn á Bréfamaraþoni samtakanna til þessa en hann mælist ekki aðeins í fjölda aðgerða. Mýmargir Íslendingar, ásamt milljónum annarra um heim allan, höfðu raunveruleg áhrif á líf fólks sem sætir pyndingum, ólögmætri fangelsun, bíður aftöku eða ræður engu um líf sitt og líkama. Samtakamátturinn getur öllu breytt í lífi þolenda mannréttindabrota því þó að stjórnvöld geti hunsað eitt bréf er erfitt að hunsa milljónir bréfa.

Vinnustaðir tóku í fyrsta sinn þátt í Bréfamaraþoni Íslandsdeildar Amnesty International og kepptu sín á milli um flestar undirskriftir á nýrri aðgerðasíðu Bréfamaraþonsins, Bréf til bjargar lífi. Á vefsíðnni mátti finna 12 mál einstaklinga sem allir hafa sætt grófum mannréttindabrotum. Með einum smell gátu þátttakendur gripið til aðgerða í þágu allra brotaþola eða valið þau mál sem þeir kusu að styðja.

Fjöldi vinnustaða tóku þátt á vefsíðunni, Bréf til bjargar lífi  og safnaði starfsfólk Landspítalans, Hagkaupa og Bónus flestum undirskriftum. Samtals safnaði starfsfólk vinnustaða 4.228 undirskriftum sem er glæsilegur árangur.

Íslandsdeild Amnesty International þakkar öllum þeim sem gripu til aðgerða í þágu þolendenda mannréttindabrota, fyrir hönd síns vinnstaðar, heilshugar fyrir framlag sitt í baráttunni fyrir betri heimi.