Amnesty International vekur athygli á skýrslu um ástand mannréttinda í Aserbaídsjan, sem kom út í lok 2011. Skýrslan fjallar um árásir stjórnvalda þar á mótmælendur, frá því að mótmæli brutust út í landinu í mars 2011.
Amnesty International vekur athygli á skýrslu um ástand mannréttinda í Aserbaídsjan, sem kom út í lok 2011. Skýrslan fjallar um árásir stjórnvalda þar á mótmælendur, frá því að mótmæli brutust út í landinu í mars 2011.
Skýrslan ber heitið Vorið sem aldrei varð: árásir gegn frelsi í Aserbaídsjan, (The spring that never blossomed: Freedoms suppressed in Azerbaijan) lýsir öldu hótana og fangelsana stjórnvalda í kjölfar mótmæla gegn spillingu og aukinni kúgun gegn óháðum fréttamiðlum, frjálsum félagasamtökum og stjórnarandstöðuflokkum.
Síðan þá hefur ungt baráttufólk og stjórnarandstæðingar verið sett í fangelsi að geðþótta yfirvalda, eða í kjölfar upploginna ásakana, en blaðamenn og baráttufólk fyrir mannréttindum hafa sætt hótunum og áreitni.
Amnesty International telur 17 manns, sem handteknir voru í kringum mótmælin, vera samviskufanga og krefst þess að þeir verði tafarlaust leystir úr haldi. Einn þeirra, Jabbar Savalan, var náðaður í lok desember, eftir mikinn þrýsting frá almenningi víða um heim, sem tók mál hans upp í bréfamaraþoni Amnesty International í desember 2011.
Kúgun stjórnvalda er ætlað að senda út þau skilaboð að mótmæli almennings verði ekki liðin, né heldur nokkur tilraun til að sameina almenning í andstöðu við núverandi stjórnvöld.
Amnesty International hvetur Evrópusambandið og alla aðra, sem eiga í alþjóðlegri samvinnu við Aserbaídsjan, að þrýsta á um að samviskufangar í landinu verði leystir úr haldi og stjórnvöld hætti að berja niður friðsamleg mótmæli, gagnrýni og stjórnarandstöðu í landinu.
Hundruð mótmælenda gengu um götur höfuðborgarinnar, Baku, í mars og apríl 2011 og krafðist lýðræðislegra umbóta og aukinnar virðingar við mannréttindi. Stjórnarandstæðingar og baráttufólk tók mið af fjöldamótmælunum í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku og notaði miðla á netinu til að skipuleggja sig og miðla upplýsingum.
Yfirvöld í Aserbaídsjan svöruðu með því að banna mótmæli og áreita og handtaka bloggara og baráttufólk.
Í kjölfar mótmælanna voru 14 baráttumenn og stjórnarandstæðingar dæmdir í allt að þriggja ára fangelsi fyrir að „skipuleggja og taka þátt í brotum gegn almannareglu“. Amnesty International telur að engar sannanir séu fyrir því að þessir einstaklingar hafi gert annað en að nýta sér tjáningar- og fundafrelsi sitt þegar þeir skipulögðu friðsamleg mótmæli í miðborg Baku.
Stjórnvöld halda áfram að nota dómskerfið til að þagga niður í gagnrýni fjölmiðla, og erlendir fjölmiðlar hafa ekki verið leyfðir í landinu frá 2009.
Ganimat Zahid, ritstjóri stjórnarandstöðublaðsins Azadlighefur tjáð Amnesty International: „Ríkisstjórnin er að auka kverkatök sín á öllum samskiptaformum með því að takmarka aðgang að upplýsingum, prentpappír og dreifingarstöðum fyrir sjálfstæða fjölmiðla, með þeim afleiðingum að almenning skortir aðgang að upplýsingum. Við reiðum okkur æ meira á samskiptamiðla á netinu til að fylla upp í tómarúmið og eiga upplýstar samræður“.
Ríkisstjórnin íhugar nú einnig að setja á lög sem gætu hugsanlega takmarkað aðgang netnotenda að upplýsingum og þrengt enn að tjáningarfrelsi á netinu.
Uppsöfnuð áhrif þessara aðgerða stjórnvalda, ásamt með langvarandi refsileysi þeirra, eru þau að í landinu ríkir andrúmsloft ótta og sjálfsritskoðunar sem grefur undan lýðræðisþróun í Aserbaídsjan.
Landið er ríkt af olíu, en á þeim 20 árum sem landið hefur notið sjálfstæðis, hefur efnahagslegur vöxtur og stöðugleiki ekki leitt til aukinna grundvallarréttinda borgaranna. Alþjóðasamfélagið hefur lítið gert til að sporna við þróun í átt að auknu einræði í landinu.
Yfirvöld í Aserbaídsjan verða að snúa af þessari braut og samstarfsaðilar þeirra á alþjóðavettvangi verða að gera þeim ljóst að þeir muni ekki eiga viðskipti við þá sem stunda mannréttindabrot.
