Amnesty International harmar að fréttatilkynning um hernaðaraðferðir Úkraínuhers hafi valdið áhyggjum og reiði. Frá því að innrás Rússlands hófst í febrúar 2022 hefur Amnesty International rannsakað og ítrekað greint frá stríðsglæpum og mannréttindabrotum Rússlands í Úkraínu og rætt við hundruð þolenda. Frásagnir þeirra varpa ljósi á grimmilegi veruleika þar í landi vegna ólögmætrar innárásar Rússlands. Amnesty International hefur hvatt heimsbyggðina til að sýna íbúum Úkraínu samstöðu með aðgerðum og því verður sannarlega haldið áfram.
Forgangsröð Amnesty International, í þessum átökum og öðrum, er að tryggja vernd óbreyttra borgara og var það eina markmið samtakanna með því að birta niðurstöður þessarar rannsóknar. Afstaða Amnesty er óbreytt en okkur þykir mjög leitt að hún hafi valdið sársauka. Því viljum við útskýra nánar nokkur mikilvæg atriði.
Í fréttatilkynningunni var greint frá því að í 19 bæjum og þorpum sem Amnesty International heimsótti voru tilfelli þar sem úkraínski herinn staðsetti sig við hliðina á heimilum óbreyttra borgara sem stefndi hugsanlega öryggi þeirra í hættu vegna árása Rússa.
Umrætt mat Amnesty International byggist á reglum alþjóðlegra mannúðarlaga sem setja þau skilyrði að allir aðilar í átökum forðist, eftir fremsta megni, að setja hernaðarleg skotmörk í eða við þéttbýl svæði. Lög um stríðsátök eru m.a. sett í þeim tilgangi að vernda óbreytta borgara. Af þessum ástæðum þrýstir Amnesty International á stjórnvöld að framfylgja þeim.
Það þýðir þó alls ekki að Amnesty International dragi úkraínskar hersveitir til ábyrgðar fyrir brot rússneskra hersveita eða að úkraínski herinn hafi ekki annars staðar í landinu gripið til varúðarráðstafana í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög.
Það er kristaltært að ekkert sem Amnesty skráði um gjörðir úkraínska hersveita réttlætir mannréttindabrot Rússlands. Rússland er eitt og sér ábyrgt fyrir mannréttindabrotum rússneskra hersveita á úkraínskum borgurum. Starf Amnesty International síðustu sex mánuði ásamt fjölmörgum skýrslum um og rannsóknum á mannréttindabrotum og stríðsglæpum Rússlands sýnir hversu mikil og alvarleg áhrif þau hafa haft á óbreytta borgara.
Amnesty International sendi úkraínskum stjórnvöldum niðurstöður rannsóknarinnar þann 29. júlí síðastliðinn. Í bréfinu fylgdu GPS hnit og aðrar viðkvæmar upplýsingar um staðsetningar, m.a. skóla og sjúkrahúsa, þar sem úkraínskar herveitir höfðu staðsett sig mitt á meðal óbreytta borgara. Þessar upplýsingar eru ekki birtar í fréttatilkynningu okkar vegna þeirrar hættu sem því myndi fylgja bæði fyrir úkraínskar hersveitir og þá óbreyttu borgara sem veittu okkur viðtal.
Amnesty leitast við að greina frá mannréttindabrotum af óhlutdrægni. Þegar alþjóðleg mannúðarlög eru brotin, eins og í þessu tilviki, greinum við frá þeim á nákvæman hátt.
Nálgun Amnesty International í Úkraínu er sú sama og samtökin hafa beitt í áratugi þegar kemur að vopnuðum átökum. Áður hefur Amnesty International skráð brot beggja aðila í vopnuðum átökum í Tigray-héraði í norðurhluta Eþíópíu, Nagorno-Karabakh í átökum milli Armeníu og Aserbaísjan, Írak/Sýrlandi, Ísrael/hernumdu svæðum Palestínu, Mjanmar, Alsír og Nígeríu.
Niðurstöður Amnesty International eru í samræmi við aðrar áreiðanlegar heimildir. Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna gaf út skýrslu þann 29. júní þar sem greint var frá því að úkraínskarog rússneskar hersveitir staðsettu bækistöðvar í íbúðabyggð eða nærri borgaralegum mannvirkjum og að hernaðaraðgerðir fóru þar fram án þess að gripið væri til aðgerða til að vernda óbreytta borgara á svæðinu í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög. Human Rights Watch gaf út skýrslu þann 21. júlí með svipuðum niðurstöðum þar sem skráð var að úkraínskar og rússneskar hersveitir staðsettu bækistöðvar í íbúðabyggð og að óbreyttir borgarar hefðu látið lífið og særst vegna árása á stöðvarnar.
Forgangsröð Amnesty International er ávallt sú að tryggja að líf óbreyttra borgara og mannréttindi séu vernduð í stríðsátökum.
